Westbrook með kórónaveiruna

epa08544650 (FILE) - Houston Rockets guard Russell Westbrook reacts during the NBA basketball game between the Houston Rockets and the New York Knicks at Madison Square Garden in New York, USA, 02 March 2020 (re-issued on 14 July 2020). US basketball player Russell Westbrook of the Houston Rockets was tested positive for the coronavirus COVID-19 disease, Westbrook confirmed on late 13 July 2020.  EPA-EFE/JASON SZENES  SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA

Westbrook með kórónaveiruna

14.07.2020 - 09:56
Súperstjarna Houston Rockets í NBA-deildinni í körfubolta, Russell Westbrook, greindist á dögunum með kórónaveiruna. Lið NBA-deildarinnar búa sig af kappi undir að hefja keppni að nýju.

Öll liðin sem halda áfram keppni í deildinni eru komin til Orlando þar sem restin af deildarkeppninni og úrslitakeppnin fara fram. Allir leikmenn og starfsmenn liðanna voru skimaðir fyrir kórónaveirunni áður en haldið var til Orlando og þá greindist Westbrook. 

Hann greindi frá niðurstöðunni á Twitter í gærkvöldi. Þar segist hann hafa fengið jákvæða niðurstöðu áður en haldið var til Orlando. Honum líði vel, sé í sóttkví og hlakki til að snúa aftur til liðsfélaga sinna. Svo áréttar hann fyrir fylgjendum sínum að taka vírusinn alvarlega og nota grímur.

Russell Westbrook er ein skærasta stjarnan NBA-deildarinnar. Eftir ellefu ár með Oklahoma City Thunder gekk hann til liðs við Houston í fyrra. Hann var valinn besti leikmaður deildarinnar árið 2017 og hefur tvívegis verið stigahæstur í deildinni og tvívegis stoðsendingahæstur.

Engin miskunn í NBA-búbblunni

Ekki taka öll lið NBA-deildarinnar þátt í endasprettinum. 22 lið af 30 eru komin til Orlando og leika þar átta leiki á svæði ESPN í Disney World. 16 lið fara svo áfram í úrslitakeppnina sem verður leikin á sama svæði. Keppni hefst 30. júlí og lýkur í október.

Leikmenn liðanna 22 eru allir einangraðir á hótelum Disney World og hefur svæðið í glensi verið nefnt NBA-búbblan (NBA bubble). Leikmenn mega ekki yfirgefa svæðið og ekki eiga nein samskipti við umheiminn utan búbblunnar. Á því fékk Richaun Holmes, leikmaður Sacramento Kings, að kenna. Hann yfirgaf svæðið til að sækja sér mat og var snarlega settur í sóttkví.

„Ég er í sóttkví og á átta daga eftir. Ég biðst afsökunar á framferði mínu og hlakka til að hitta liðsfélaga mína aftur og keppa um úrslitakeppnina,“ sagði Holmes á Twitter.