Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vörðu Dettifoss með hnífum prýddum gaddavír 

14.07.2020 - 21:24
Dettifoss var vafinn með gaddavír til að verja skipið fyrir sjóræningjum
 Mynd: Aðsent
Áður en nýi Dettifoss kom til hafnar í Reykjavík í gær sigldi skipið um sjóræningjaslóðir á leið sinni til Íslands. Til að verjast sjóránum á þeirri leið var skipið vafið gaddavír. Bragi Björgvinsson, skipstjóri á Dettifossi, segir nánast algilt að þau skip sem sigla um þessar slóðir séu þannig útbúin.

Bragi segir  í samtali við fréttastofu aðferðina vera svo algenga að sérstök fyrirtæki sérhæfi sig í að veita slíka þjónustu. Eimskip nýtti sér aðstoð eins slíks fyrir heimferðina. „Þeir fengu sendar teikningar, tóku skipið út og ráðlögðu svo hvað ætti að gera,“ segir hann og kveður áhöfnina hafa farið í einu og öllu eftir þeim tilmælum.

Það var meðal annars gert með því að vefja gaddavírslengjum utan rekkverk skipsins, allt frá stefni aftur á skut áður en komið var til Sri Lanka. Ólíkt hefðbundnum gaddavír eru vírlengjurnar prýddar hárbeittum 3-4 sentímetra löngum hnífum í stað vírhnútanna sem flestir kannast við af gaddavírsgirðingum.

„Þannig að ef einhver ætlar um borð þá þarf hann að fara í gegnum vírinn,“ segir Bragi. „Þetta er mjög algengt og allt að því skylda fyrir þau skip sem sigla þarna.“ 

Auk gaddavírsvarnarinnar voru þrír málaliðar, eða atvinnuhermenn vopnaðir byssum og rifflum, teknir um borð í Sri Lanka og sigldu þeir með skipinu á meðan farið var upp Rauðahafið. 

Engir sjóræningjar urðu á leið Dettifoss sem hlýtur að hafa reynst áhöfninni léttir. „Þetta var mjög vel undirbúið og vel að þessu staðið,“ bætir Bragi við en hann  líkt og aðrir í áhöfninni hefur ekki áður siglt um sjóræningjaslóðir.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir
Dettifoss kemur að bryggju í Reykjavíkurhöfn.
Anna Sigríður Einarsdóttir