Skylda að bera grímu í breskum búðum

14.07.2020 - 06:43
epa08538691 Pedestrians on Oxford Street in central London, Britain, 10 July 2020. Britain's High Street is continuing to feel the impact of the lockdown caused by the Coronavirus, with job losses and store closures almost a daily occurrence. The UK's economy has suffered a two per cent fall, its worst decline since the 2008 financial crash.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Frá og með 24. júlí verður viðskiptavinum enskra verslana skylt að bera grímur fyrir vitum sér á meðan þeir stunda sín viðskipti þar innan dyra. Þau sem ekki fara eftir þessum fyrirmælum eiga yfir höfði sér sekt upp á allt að 100 pund, sem jafngildir ríflega 17.500 krónum. Með þessu fylgja bresk stjórnvöld fordæmi Skota og nokkurra ríkja á evrópska meginlandinu, þar á meðal Spánar, Þýskalands og Ítalíu.

Grímuskylda í lestum og strætó

Enskum almenningi hefur verið ráðlagt að bera grímu fyrir vitum sér frá því um miðjan maí og grímuskylda hefur verið við lýði í öllum almenningssamgöngum á Englandi frá 15. júní. Í frétt BBC segir að Matt Hancock, heilbrigðisráðherra, muni að líkindum kynna hinar hertu reglur um grímunotkun í dag.

Reglunum er ætlað að hamla gegn útbreiðslu kórónaveirufaraldursins, en einnig er vonast til þess að fleiri treysti sér til að fara út í búð að versla eftir að þær taka gildi, segir í frétt BBC.

Nýleg könnun á vegum hins opinbera leiddi í ljós að grímunotkun hefur aukist talsvert að undanförnu meðal almennings í Skotlandi, Wales og Englandi. Könnunin var gerð fyrstu vikuna í júlí og sagðist ríflega helmingur svarenda hylja vit sín með einhverjum hætti þegar þeir bregða sér af bæ.

Yfir 290.000 COVID-19 tilfelli hafa verið greind í Bretlandi og nær 45.000 dauðsföll rakin til sjúkdómsins, fleiri en nokkurs staðar utan Bandaríkjanna og Brasilíu. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi