Reyndi innbrot í tvígang áður en hann stal bifreið

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögregla elti í nótt uppi mann sem gerði ítrekaðar tilraunir til innbrots og flýði svo á stolnum bíl. Tilkynning barst um tilraun til innbrots í hús í Árbæ laust fyrir miðnætti. Um klukkustundu síðar barst tilkynning um tilraun til innbrots í annað hús í Árbænum. Af lýsingum tilkynnenda mátti ráða að sami maður hafi verið á ferð í báðum tilfellum.

 

Skömmu síðar, laust eftir klukkan eitt, sér lögreglan mann sem lýsingin á við, undir stýri bifreiðar. Hann sinnir stöðvunarmerkjum lögreglu í engu heldur ekur áfram nokkurn spöl áður en hann stoppar og tekur til fótanna inn í Elliðaárdalinn. Hann fannst svo eftir nokkra leit og var handtekinn og færður í fangageymslu. Í ljós kom, segir í tilkynningu lögreglu, að hann hafði stolið bifreiðinni við seinna húsið sem hann reyndi að brjótast inn í.

Heimilisofbeldi og meint unglingaslagsmál

Lögregla handtók líka einn mann í gærkvöld fyrir heimilisofbeldi. Auk þess var tilkynnt um hóp ungmenna, þar sem einhverjir í hópnum voru sagðir vopnaðir og í vímu. Um leið og lögregla kom á vettvang létu nokkrir sig hverfa en aðrir fóru hvergi. Fylgdist lögregla með framvindu mála nokkra stund og varð ekki vitni að neinum látum. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi