Rakel fjórða íslenska konan sem kemst á topp-listann

Mynd: Lucky Number Music / Facebook

Rakel fjórða íslenska konan sem kemst á topp-listann

14.07.2020 - 08:36

Höfundar

Söngkonan Rakel Mjöll Leifsdóttir, forsprakki hljómsveitarinnar Dream Wife, er fjórða íslenska konan sem skipar sæti á lista yfir tuttugu vinsælustu plötur í Bretlandi. Ný plata sveitarinnar So When You Gonna vermir átjánda sætið.

Rakel Mjöll fetar þar með í fótspor þeirra Bjarkar Guðmundsdóttur og Margrétar Örnólfsdóttur úr hljómsveitinni Sykurmolunum, og Nönnu Bryndísar Hilmarsdóttur úr hljómsveitinni Of Monsters and Men. 

Platan So When You Gonna skipar auk þess annað sæti indí-tónlistarlistans og það þriðja á vínyl-listanum, segir Rakel á Facebook.

Þá er platan einnig sú eina á vinsældalistanum sem er gefin út af sjálfstæðum plötuútgefanda og sagði Rakel, í samtali við Morgunútvarp Rásar 2, það vera afar óvenjulegt að sjálfstæðar útgáfur nái sæti á listanum.

Konurnar á bak við plötuna

Hljómsveitin Dream Wife var stofnuð 2015 og hana skipa, auk Rakelar, Alice Go og Bella Podpadec. Hljómsveitinni þótti mikilvægt að stuðla að auknu kynjajafnrétti innan tónlistariðnaðarins og því koma aðeins konur að gerð plötunnar.

Hljómsveitin fékk þær Mörtu Salogni, Grace Banks og Hebu Kedry í lið með sér við að framleiða So When You Gonna. Platan er sú eina á vinsældarlistanum sem er framleidd af konum, sem kemur kannski ekki á óvart þegar litið er til þess að innan við fimm prósent platna eru framleiddar af konum, líkt og Rakel bendir á.

 

Áhrifaríkar á sviði

Með því að skipa sæti á listanum opnast nýjar dyr, staðfestir Rakel Mjöll. Þetta getur leitt til fleiri bókana og meiri spilunar hjá BBC. Þá getur þetta haft áhrif á skipuleggjendur tónleikahátíða svo sem þegar taka á ákvarðanir um á hvaða sviði hljómsveitin eigi að spila og hvenær og svo á upphæð launa.

„Við höfum unnið okkur frekar gott orðspor fyrir að vera mjög gott „live-band“ og höfum nýtt það til að geta ferðast um allan heim með tónlistina okkar,“ segir Rakel. Þær hafi þó þurft að breyta plönum sínum og aflýsa áttatíu tónleikum að svo stöddu sökum COVID-faraldursins.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Upphaflega var greint frá því að Rakel væri þriðja íslenska konan sem komst á listann. Hið rétta er að hún er sú fjórða.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Baggalútur og Dream Wife með nýtt efni

Popptónlist

Flóni, Dream Wife og Raven með nýtt

Mynd með færslu
Tónlist

Dream Wife – F.U.U. ft. Fever Dream