Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýtt kaupskip Eimskips skráð í Færeyjum

14.07.2020 - 22:48
Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Nýtt kaupskip Eimskips er skráð í Færeyjum og siglir því undir færeyskum fána. Forstjóri félagsins segir Færeyjar hafa það umfram Ísland að bjóða upp á alþjóðlega skipaskrá. Þá skipti skattaumhverfi máli.

Starfsmenn Eimskips og fjölskyldur þeirra tóku á móti nýju kaupskipi með viðhöfn í gær. Dettifoss er stærsta kaupskip sem Íslendingar hafa átt. En engu að síður er skipið skráð í Þórshöfn í Færeyjum. 

Af hverju er skipið skráð í Færeyjum?

„Það má kannski segja að það séu fyrst og fremst tvær ástæður fyrir því. Það er annars vegar að það er mjög góð alþjóðleg skipaskrá fyrir kaupskipaútgerð í Færeyjum sem því miður við höfum ekki hér á Íslandi. Síðan eigum við mjög stórt og myndarlegt fyrirtæki, 100%, í Færeyjum, Faroe Ship,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskipafélags Íslands ehf.
 
Allir í áhöfn Dettifoss eru Íslendingar.

En eru skattar svo íþyngjandi á Íslandi að þetta hjálpar eitthvað að hafa skipið skráð í Færeyjum?

„Það má kannski bara segja heildarumgjörð utan um svona skipaskrá, þar með talin skattalöggjöf, snerti. Við erum vissulega í alþjóðlegum rekstri og alþjóðlegri samkeppni, þannig að skattar eru eitt,“ segir Vilhelm.

Munar miklu á sköttum á Íslandi og í Færeyjum?

„Nei, í sjálfu sér ekki. Ekki alla vega eitthvað sem ég get útskýrt hvernig leggst nákvæmlega. Það fer líka aðeins eftir því hvernig við erum að nýta skipið, magnið sem er í skipinum og öðru slíku,“ segir Vilhelm.

Hann segir að keppinautar félagsins skrái ekki skipin hér á landi.

„Það eru engin kaupskip eins og staðan er núna og hefur verið í nokkuð langan tíma, þá hafa engin kaupskip verið skráð á Íslandi,“ segir Vilhelm.

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

Hluti áhafnar Dettifoss hafði ekki hitt fjölskyldu sína í 118 daga því senda þurfti menn út til Kína til að sækja skipið. Þeir fóru þangað í mars en siglingin heim til Íslands hófst í byrjun maí.