Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Máttu leggja stjórnvaldssekt á Menn í vinnu

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Vinnumálastofnun var heimilt að leggja 2,5 milljón króna stjórnvaldsekt á starfsmannaleiguna Menn í vinnu. Þetta kemur fram í úrskurði félagsmálaráðuneytisins. Starfsmannaleigan var tekin til gjaldþrotaskipta í september á síðasta ári.

Vinnumálastofnun lagði í mars í fyrra stjórnvaldssekt á Menn í vinnu og var það í fyrsta skipti sem þessari nýju heimild var beitt. Ástæða sektarinnar var misræmi í skráningum starfsmanna fyrirtækisins hjá Vinnumálastofnun, eftir að í ljós hafði komið að fjöldi starfsmanna hjá starfsmannaleigunni voru ekki á skrá hjá stofnuninni. Lögum samkvæmt er starfsmannaleigum skylt að veita upplýsingar um starfsmenn.

Forsvarsmenn Manna í vinnu vildu ekki una sektinni og kærðu ákvörðunina til félagsmálaráðuneytis. Sagði Halla Rut Bjarnadóttir, annar eigenda Manna í vinnu, í samtali við fréttastofu í apríl í fyrra að sektin væri tilhæfulaus. Mistök hafi orðið hjá nýjum starfsmanni við skráningu upplýsinga á vef Vinnumálastofnunar, en það hafi verið leiðrétt um leið og fyrirtækinu barst bréf frá stofnuninni.

Sagði í kæru fyrirtækisins að ákvörðun Vinnumálastofnunar feli í sér valdníðslu og brot á stjórnsýslulögum, sem og ákvæðum laga um starfsmannaleigur. Ólögmæt sjónarmið hafi legið að baki sektinni sem forsvarsmenn Manna í vinnu rekja til umfjöllunar fjölmiðla um hóp Rúmena sem fullyrt var að væru í nauðungarvinnu hjá fyrirtækinu.

Ráðuneytið féllst ekki á þessi rök og segir í úrskurði þess Vinnumálastofnun hafi aflað tilskilinna gagna og mikill meirihluta starfsmanna, eða 74 af 86 starfsmönnum, hafi ekki verið skráðir hjá Vinnumálastofnun líkt og lög gera ráð fyrir. Aukinheldur hafi verið annmarkar á skráningu þeirra starfsmanna sem fyrirtækið hafði skráð.

Er það því mat ráðuneytisins að um Menn í vinnu hafi gerst sekir um alvarleg og ítrekuð brot á upplýsingaskyldu og því sé fjárhæð stjórnvaldssektarinnar hæfilega ákvörðuð.