Líkaminn eins og tyggjóklessa með nokkrum beinum í

Sunna Ben Plötusnúður og Myndlistakona
 Mynd: Saga Sig

Líkaminn eins og tyggjóklessa með nokkrum beinum í

14.07.2020 - 13:22
Sunna Ben er plötusnúður, ljósmyndari, heilsugúrú, einkaþjálfari, myndlistarkona og margt fleira. Sunna ræðir um að byrja aftur í ræktinni eftir meðgöngu, veganisma, Marilyn Manson og plötusnúðarferilinn í hlaðvarpinu Þungarokk og þungar lyftur þar sem Gunnar Ingi Jones fjallar um mörkin milli rokktónlistar og kraftlyftinga.

Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni hér.

Sunna Ben segir að hún sé mikið nörd og þegar hún taki að sér verkefni taki hún það alla leið. „Ég byrjaði rosa seint að lyfta en þegar ég byrjaði þá fannst mér það geggjað og ég fór í einkaþjálfarann og crossfit-þjálfarann,“ segir Sunna.

Eftir meðgöngu átti hún erfitt með að byrja aftur að hreyfa sig því hún varð mjög veik. „Ég fékk meðgöngueitrun og varð sko 100 kg, þar af 30 eða 40 kg sem var bara bjúgur og svo fékk ég grindargliðnun og vökva í hjartað og vökva í lungun og bara allt gerðist. Allt sem maður hugsaði, svona, að væri fáránlegt að myndi gerast, það gerðist allt. Þannig að líkaminn minn var svona eins og tyggjóklessa með nokkrum beinum í eftir þetta.“  

Þegar hún var búin að eiga hugsaði hún að hún myndi aldrei vilja gera þetta aftur, en svo þegar hún byrjaði að kynnast syni sínum þá vill hún eignast tíu börn í viðbót.

Sunna hefur verið vegan síðan 2016 en þó búin að vera grænmetisæta síðan 2005. Í dag mætti segja að hún væri atvinnuvegan það sem hún starfar í veganbúðinni. Hún segir að margir vilji meina að veganistar borði einungis pítsur og brauð en ekki neitt hollt. „Það er ekkert satt, það á allavegana ekki við mig.“

„Það er náttúrlega bara eins með vegan matarræði og hvaða matarræði sem er, ef þú borðar óhollt þá finnurðu fyrir því og það er alveg mjög auðvelt að borða óhollan veganmat.“

Sunna er ein af vinsælustu plötusnúðum landsins. Hún hefur haft mikinn áhuga á tónlist frá því hún var lítil. Hún bað bara um geisladiska í afmælis- og jólagjafir.

„Ég byrjaði að kaupa mér geisladisk þegar ég var svona sjö ára. Svo flutti ég til Bretlands þegar ég var átta ára og þar fékk ég vasapening, í hverri viku fékk ég eitt pund og fyrir það gat maður keypt eitt poppblað, þannig ég keypti mér eitt poppblað í hverri viku, oftast af því það fylgdu límmiðar með því og stundum fylgdu geisladiskar með því,“ segir Sunna.

Fyrir ofan hana bjó svo maður sem vann á útvarpsstöð. „Þannig ég fékk alveg endalaust af singlum frá Mark á efri hæðinni.“ Sunna var plötusnúður hjá Reykjavíkurdætrum í nokkur ár en starfar sjálfstætt í dag í tónlistinni.

Í hlaðvarpsþættinum Þungarokk og þungar lyftur fræðumst við betur um samspil heilsu og tónlistar og hvort það sé einhver tenging þar á milli. Gunnar Ingi fær til sín góða gesti sem tengjast lyftingum og rokki.

Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan, í öllum helstu hlaðvarpsveitum og á Spotify.