Kvörtunum til umboðsmanns fjölgaði um tæp 40 prósent

14.07.2020 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - Kveikur
Kvörtunum til umboðsmanns Alþingis fjölgaði verulega síðasta vetur í samanburði við fyrri ár. Fyrstu sex mánuði ársins bárust embættinu 265 kvartanir en 191 á sama tíma í fyrra. Um er að ræða 39 prósenta fjölgun milli ára.

Fjöldi kvartana tók stökk í síðasta mánuði en þá bárust umboðsmanni 62 kvartanir. Í júní á síðasta ári voru kvartanirnar 28 talsins. Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, segir í samtali við fréttastofu að fjölgunin skýrist af mörgum þáttum. Málaflokkar sem kvartað er yfir eru sömuleiðis af ýmsu tagi. 

„Þegar þrengir að í samfélaginu og fjárráð verða minni, þá fjölgar kvörtunum hjá umboðsmanni. Hvort að það sé að gerast núna kann ég ekki að fullyrða um en við höfum ekki einhlíta skýringu á því,“ segir Tryggvi. 

Hér má sjá fjölda kvartana síðasta vetur í samanburði við veturinn 2018 til 2019.

Fjölgun mála kemur niður á málshraða og frumkvæðisathugunum

Tryggvi segir að tekist hafi að halda í við fjölgunina að því er varðar afgreidd mál. Um síðustu mánaðamót höfðu 46 prósent fleiri mál verið afgreidd en á sama tíma í fyrra. 

„Ég hef alltaf lagt áherslu á að fólk fái sem fyrst svar við því hvort umboðsmaður geti fjallað um málið. Ef hann fjallar ekki um málið geti fólk leitað annað,“ segir Tryggvi. Hann bætir við að embættinu hafi tekist að halda í horfinu hvað varðar afgreiðslu nýrra mála. „Þetta hefur hins vegar bitnað á eldri málum þar sem við þurfum að leggja í verulega vinnu við álit og ítarleg lokabréf. Síðan hefur þetta líka bitnað á frumkvæðismálum sem við höfum verið að reyna að sinna,“ segir hann. 

Tryggvi nefnir í því samhengi mál sem embættið hóf athugun á síðla árs 2018 og varðar stöðu þeirra sem mæla hvorki né skilja íslensku í samskiptum við stjórnvöld. „Við erum núna fyrst þessa dagana að koma þessu verki frá okkur og skila áliti og niðurstöðu í því,“ segir hann. Embættið hefur einnig til skoðunar mál er varðar dvalarstaði frelsissviptra einstaklinga. „Allt hefur þetta tekið í þegar kvörtunum hefur fjölgað verulega eins og núna,“ segir Tryggvi. 

Allnokkrar fyrirspurnir í tengslum við COVID

Aðspurður hvort efni kvartananna tengist að einhverju leyti COVID-19 faraldrinum segir Tryggvi að embættinu hafi borist nokkur fjöldi fyrirspurna þess efnis. „Það hafa komið allnokkrar fyrirspurnir sem tengjast þeim málum. Staðan er sú að í flestum tilvikum á eftir að tæma kæruleiðir innan stjórnsýslunnar og fá til dæmis úrskurði ráðuneyta eða úrskurðarnefnda. Fyrr getur umboðsmaður ekki fjallað um málið,“ segir Tryggvi. 

„Við höfum hins vegar lagt áherslu á að leiðbeina fólki og þá vegna fyrirspurna sem okkur hafa borist, eða ef okkur hafa borist kvartanir sem við höfum ekki getað sinnt, að leiðbeina fólki hvernig það getur fengið niðurstöðu í mál sín,“ segir Tryggvi að endingu.

 

 

 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi