Íspinninn Eskimo verður O'Payo

14.07.2020 - 17:17
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Danska fyrirtækið Hansens Flødeis tilkynnti í dag að rjómaíspinninn Eskimo sem það hefur framleitt áratugum saman heiti héðan í frá O'Payo. Á vef fyrirtækisins segir að þetta sé ákveðið að vel athuguðu máli. Eskimo eða eskimói sé orðið vandræðaorð, minni á niðurlægjandi meðferð og ójöfnuð sem minnihlutahópar og frumbyggjar hafi verið beittir.

Þar af leiðandi hafa stjórnendur Hansens Flødeis ákveðið að nefna íspinnann eftir súkkulaðibaununum O'Payo frá Níkaragva.  Úr þeim er dökka súkkulaðið unnið sem notað er til að þekja vanilluíspinnana. 
Enn eru nokkrar birgðir til af Eskimo, en um leið og þær hafa gengið til þurrðar kemur O'Payo á markaðinn.

Fleiri breytingar framundan

Þessi nafnabreyting er af sama toga og til stendur hjá bandaríska ruðningsliðinu Washington Redskins. Nafn þess hefur sætt gagnrýni árum saman fyrir að vera niðrandi í garð frumbyggja í Ameríku sem öldum saman voru nefndir redskins eða rauðskinnar.

Félagið hafði vart sent frá sér tilkynningu um hina yfirvofandi nafnabreytingu þegar hafnarboltafélagið Cleveland Indians tilkynnti að til greina kæmi að skipta um nafn á því. Indíánarnir frá Cleveland hafa borið það nafn frá árinu 1915.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi