Flutningabíll gjörónýtur eftir veltu í Víðidal

14.07.2020 - 00:57
Flutningabíll valt nærri brúnni yfir Víðidalsá í samnefndum dal, ekki langt frá Víðihlíð, á tíunda tímanum að kvöldi mánudagsins 13. júlí. Farmurinn, aðallega kjöt og fiskur, fór út um allt, og var björgunarsveitin Húnar á Hvammstanga fengin til hreinsunarstarfa.
 Mynd: Björgunarsveitin Húnar
Vöruflutningabíll með tengivagn fór út af þjóðvegi 1 skammt frá brúnni yfir Víðidalsá, rétt austan við Víðihlíð, á tíunda tímanum í kvöld. Bíllinn valt en tengivagninn hélst á hjólunum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Blönduósi skrámaðist bílstjórinn nokkuð í slysinu en meiddist ekki alvarlega og var hlúð að honum á staðnum. Bíllinn, sem var á leið frá Akureyri til Reykjavíkur, er hins vegar gjörónýtur.

Farmurinn var að uppistöðu til kjöt, fiskur og steinull. Steinullinn var öll í tengivagninum en fiskurinn og kjötið dreifðust víða.

Á annan tug félaga úr björgunarsveitinni Húnum á Hvammstanga vinna nú hörðum höndum að því að bjarga því sem bjargað verður af farminum og fjarlægja það sem ónýtt er. Gunnar Örn Jakobsson, formaður Húna, segir útlit fyrir að hans menn verði við hreinsunarstörf fram eftir nóttu.

Blönduóslögreglan segir stefnt að því að ljúka hreinsunarstörfum fyrir morguninn og að hvort tveggja farmurinn og ónýtur trukkurinn verði á bak og burt áður en umferð tekur að þyngjast. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi