Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fagna tilslökunum á ferðatakmörkunum

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Ferðaþjónustan fagnar því að frá og með fimmtudegi sleppa þeir við skimun sem koma hingað til lands frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Þýskalandi. Frakkland og Spánn gætu bæst í þennan hóp. Sóttvarnalæknir segir að vegna aukinnar aðsóknar ferðamanna hafi þurft að fjölga þeim löndum sem ekki þarf að skima frá, grípa til lagasetningar eða skikka ferðamenn í tveggja vikna sóttkví. 

Grænlendingar og Færeyingar, eða fólk sem kemur frá þeim löndum hingað til lands og hefur ekki dvalist annars staðar í hálfan mánuð, hefur verið undanþegið skimun á landamærum og sóttkví. Í dag greindi sóttvarnalæknir frá því að fleiri lönd bættust á þennan lista á fimmtudag. Það eru grafík inn Danmörk, Finnland, Noregur og Þýskaland. Þetta er í ósamræmi við það sem sóttvarnalæknir sagði á fimmtudag því þá sagði hann að fleiri lönd yrðu ekki sett á listann í þessum mánuði.

Hvað gerðist?

„Það gerðist ekki neitt. Við höfum alltaf sagt að þetta er í sífelldri endurskoðun. Það var ljóst að í lok þessarar viku myndum við sennilega fara töluvert yfir 2000 manna hámarkið sem við gætum tekið sýni frá. Svo í öðru lagi erum við að fá öruggar upplýsingar frá sóttvarnarstofnun Evrópu um faraldur einstakra landa,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.

Þórólfur segir að tveir kostir hafi verið í stöðunni til að bregðast við auknum fjölda ferðamanna. Annars vegar að flýta því að fjölga löndum á öruggum lista. 

„Eða þá að grípa til einhverra mjög harðra aðgerða í því að stöðva innkomu flugs sem hefði þýtt lagasetningu og meiriháttar mál,“ segir Þórólfur.

Hann segir hugsanlegt að Frakklandi og Spáni verði bætt á listann. Með því að skikka farþega í fjórtán daga sóttkví væri unnt að draga úr ásókn ferðamanna en það væri ekki í bígerð. Samkvæmt evrópskum reglum er heimilt að banna flugferðir til landsins ef þær fara yfir afkastagetu flugvalla.  

„En þarna er ekki litið svo á að skimunin sé hluti af afkastagetu flugvallarins heldur sé þetta sóttvarnarráðstöfun sem verði að byggja á öðrum grunni,“ segir Páll Þórhallsson, verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu.

Í gær urðu breytingar á landamærum því núna þurfa Íslendingar sem koma til landsins að fara í próf með fimm daga millibili og gæta að sér í millitíðinni. 
Fyrirspurnum rignir yfir almannavarnir vegna þessa nýja verklags. Fimm hundruð fyrirspurnir bárust í dag.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, fagnar því að Danir, Finnar, Norðmenn og Þjóðverjar sleppi við skimun og sóttkví. Margir ferðamenn hafi alla jafna komið hingað frá Þýskalandi. Hún segir að níu til ellefu þúsund króna gjald fyrir skimun standi í mörgum ferðamönnum. Töluvert sé um það að ferðaskrifstofur hér hafi gripið til þess ráðs að greiða sjálfar gjaldið.