
Egyptar fá grænt ljós í Líbíu
Tvær fylkingar hafa barist um völdin í Líbíu síðustu ár, báðar með stjórn og þing. Önnur, sem situr í Trípólí, er viðurkennd af Sameinuðu þjóðunum og nýtur hernaðarlegs stuðnings frá Tyrklandi og Katar.
Hin hefur aðsetur í Benghazi í austurhluta landsins og lýtur forystu stríðsherrans Khalifa Haftar, en hann fær stuðning frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Egyptum og Rússum.
Í fyrra hóf Haftar stórsókn gegn sveitum stjórnarliða í vesturhluta landsins og settist um höfuðborgina Trípólí, en varð nýlega frá að hverfa. Talið er að stuðningur Tyrkja við stjórnarliða hafi skipt þar sköpum.
Í síðasta mánuði varaði forseti Egyptalands við því að Egyptar kynnu að senda herlið inn í landið til að vernda eigið þjóðaröryggi, þjóðaröryggi Líbíu og vegna hernáms Tyrkja eins og hann kallaði það. Samþykkt þingsins í Benghazi í morgun gefur honum grænt ljós til þess.
Varnarmálaráðherra Tyrklands, sagði fyrr í þessum mánuði Egyptar gerðu ekkert til að miðla málum og skapa einingu í Líbíu, þvert á móti kyntu þeir undir ófriði með eigin hagsmuni að leiðarljósi.