Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Efling krefur ríkið um hundruð milljóna

Mynd með færslu
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar krefst, fyrir hönd stéttarfélagsins, að ríkið greiði félagsmönnum „hundruðir milljóna“ vegna aðgerðaleysis stjórnvalda vegna ógreiddra launa, launaþjófnaðar og ýmiss annars athæfis atvinnurekenda. Standi ríkisstjórnin ekki við loforð sín um að bæta aðstæður vinnandi fólks, áskilur Sólveig sér allan rétt til að knýja á um að svo verði.

Þetta kemur fram í kröfubréfi sem Sólveig Anna birtir á Facebook-síðu sinni. Bréfið er stílað á fimm ráðuneyti; Forsætis-, Atvinnuvega- og nýsköpunar-, Dómsmála-, Félagsmála- og Fjármála- og efnahagsráðuneytin. 

Í bréfinu segir að á undanförnum árum hafi þúsundir félagsmanna leitað til Eflingar vegna ýmiss misferlis atvinnurekenda í sinn garð. Á síðasta ári hafi Efling gert hátt í 700 kröfur fyrir félagsmenn sína sem samtals hafi numið rúmum 345 milljónum króna. Lögmenn Eflingar tóku svo að sér 370 mál til frekari innheimtu.

Sólveig segir í bréfinu að sér hafi engar fregnir borist af því að stjórnvöld hyggist standa við yfirlýsingu, sem þau sendu frá sér í kjölfar Lífskjarasamningsins, um að heimildir verði auknar til refsingar ef atvinnurekandi brjóti gegn lágmarkskjörum launafólks.

„Hér með er skorað á ykkur, meðlimi í ríkisstjórn Íslands, að finna ásættanlega lausn á því loforði sem þið sjálf gáfuð í apríl 2019,“ segir í bréfinu. „Berist ekki skriflegar skýringar á því hvernig þið hyggist gera það innan skamms áskil ég mér fullan rétt til að gera það sem í mínu valdi stendur sem formaður Eflingar til að knýja á að þið standið við orð ykkar.“

Í lok bréfsins er gerð sú krafa að bætt verði fyrir „stolin laun“ með „hundruðum milljóna“.