Draugar fortíðar birtast á blaði

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd

Draugar fortíðar birtast á blaði

14.07.2020 - 10:31

Höfundar

Eldri maður sem gætir dóttursonar síns meðan foreldrarnir skreppa á ráðstefnu hljómar kannski ekki eins og uppskrift að spennubók, hvað þá spennubók með heimspekilegu ívafi og vangaveltum um sjálfsmynd manneskjunnar – en Grikkur eftir Domenico Starnone er líka óvenjuleg bók, segir Maríanna Clara Lúthersdóttir gagnrýnandi.

Maríanna Clara Lúthersdóttir skrifar:

Þetta er önnur bókin eftir hinn ítalska Starnone sem kemur út á íslensku en fyrir rúmu ári kom út hjá bókaútgáfunni Benedikt skáldsagan Bönd. Starnone er margverðlaunaður metsöluhöfundur í sínu heimalandi og hefur sérstaklega getið sér gott orð fyrir skáldsögur sem gerast á bernskuslóðum hans sjálfs, í Napólíborg á Suður-Ítalíu.

Það var hins vegar ekki fyrr en bandaríski rithöfundurinn Jumpha Lahiri þýddi tvær áðurnefndar bækur hans yfir á enska tungu sem alþjóðleg frægð barði að dyrum. Lahiri hefur, bæði í viðtölum og í formála enskrar útgáfu skáldsagnanna, rætt mikið um höfundarverk Starnone og sérstaklega orðfæri hans og stílbrögð.

Í umfjöllun sinni um Grikk talar hún um vandkvæði þess að stefna saman ólíkum talanda – annars vegar Napólímállýskunni og hins vegar öllu hófstilltari talanda Norður-Ítalíu. Þennan mun á orðfæri reynist ekki alltaf létt að þýða yfir á enska tungu.

Það má gera ráð fyrir að svipuð vandamál hafi blasað við Höllu Kjartansdóttur, sem þýddi Grikk (eins og raunar Bönd áður). Sennilega hjálpar þó að aðalpersóna Grikks er sjálf mjög meðvituð um tungumálið og gerir það ítrekað að umræðuefni. Án þess að hafa samanburðinn við frummálið virðist sem Höllu hafi tekist afskaplega vel upp í þýðingunni sem er í senn blæbrigðarík og lifandi.

Ekkill sem sagði skilið við fátæktina og sneri sér að listinni

Í Grikk segir frá hálfáttræðum myndskreyti að nafni Daniele Mallarico sem ólst upp í verkamannafjölskyldu í Napólí en varð öllum að óvörum listamaður og sagði skilið við fortíð sína og fátæktina. Hann lifir nú borgaralegu líf í Mílanó, er enn að teikna, orðinn ekkjumaður en einkadóttir hans býr með eiginmanni og ungum syni í gamla fjölskylduhúsinu í Napólí.

Þangað er Mallarico kallaður, þvert gegn eigin vilja, til þess að passa dóttursoninn meðan dóttirin og eiginmaður hennar fara á mikilvæga ráðstefnu. Sjálfur er Mallarico að stíga upp úr erfiðum veikindum og þarf auk þess að skila af sér myndum fyrir bók og því lítið spenntur fyrir því að takast þetta ferðalag á hendur.

Þegar í húsið kemur virðist hjónaband dóttur hans á vonarvöl, dóttursonurinn, Mario, er fjögurra ára og eftir atvikum hlýðinn og þegar hurðin fellur að stöfum og foreldrarnir eru farnir fyllast bæði Mallarico og lesandinn óhug yfir öllu því sem gæti farið úrskeiðis meðan gamalmennið og barnið eiga að sjá um sig sjálfir.

Óhugnaður og draugar fortíðar voma yfir frásögninni

Raunar má segja að óhugnaður og draugar fortíðar vomi yfir frásögninni allri, bæði er Mallarico að reyna að myndskreyta draugasögu eftir breska rithöfundinn Henry James en einnig ásækja hann draugar frá uppvextinum í þessu sama húsi. Óhugnanlegar sýnir birtast honum í hverju horni og efasemdir um að honum hafi í raun nokkurn tímann tekist að losa sig úr þeirri gildru fátæktar og ofbeldis sem hann ólst upp í verða sífellt meira knýjandi.

Sambandið milli barnabarns og afa er viðkvæmt, valdabaráttan stöðug. Mallarico reynir að vinna og Mario truflar hann í sífellu, Mallarico reynir að vinna og heyrir ekkert til Mario – hvað er drengurinn að gera? Þeir rífast og stríða hvor öðrum, Mario gerir afa sínum grikk og lesandinn veit ekki hvort hann á að hafa meiri áhyggjur af drengnum eða gamla manninum. Enda eru þeir bundnir órjúfanlegum böndum, ef illa fer fyrir öðrum fer sömuleiðis illa fyrir hinum. Hæfileiki drengsins til þess að stuða afa sinn og draga úr honum kjark og mátt er í senn hlægilegur og skelfilegur og meistaralegt hvernig Starnone tekst að gera litla drenginn að hættulegri veru áður en hann kippir lesandanum aftur niður á jörðina og minnir á að þetta er aðeins fjögurra ára gamalt barn.

Hverjum má treysta?

En þetta stílbragð rímar mjög vel við frásögnina alla. Ekkert er alveg eins og það sýnist og lesandinn á oft erfitt með að treysta frásögn Mallarico – af mörgum ástæðum; hann er gamall og hrumur, hann er fullur af bæði fordómum og sleggjudómum fyrir umhverfinu og blindaður af sýn sinni á gömlu heimaborgina, Napólí.

Persónur birtast sem viðkunnanlegar eða djöfullegar eftir því hvernig Mallarico er sjálfur stemmdur. Þannig velkist lesandinn í sífelldum vafa um hvort umhverfið sé fjandsamlegt eða ekki. Dóttir hans og tengdasonur, nágrannarnir á neðri hæðinni, konan sem kemur og þrífur, Mario litli og síðast en ekki síst Mallarico sjálfur. Hverjum má treysta?

Mallarico sér drauga og djöfla í hverju horni og sú mynd sem dregin er upp af Napólí er heillandi og óþægileg í senn. Ofbeldi, vanmáttur og hiti – allt þetta flúði hann meðvitað og vonaðist til þess að þurfa aldrei að mæta því aftur. En nú þegar hann er staddur aftur á æskuheimilinu læðast efasemdirnar að honum; er mögulegt að hann hafi svikið rætur sínar, afneitað ákveðnum þáttum í eðli sínu og hafi því aldrei verið heill maður? Ákvað hann að verða listamaður fremur en að hann hefði raunverulega eitthvað að segja eða gefa sem slíkur? Ofbeldið birtist í æskublikum og í tungumálinu – en ekki síst kemur það fram í myndmáli hans sjálfs. Minningarnar rata inn í teikningar fyrir bók Henry James og draugar Mallarico verða draugar James.

Hver við erum sem börn og hvernig við mótumst á lífsleiðinni eru meðal þeirra spurninga sem Starnone veltir hér upp áður en hann skilur lesandann eftir með óþægilegar efasemdir um þær ákvarðanir sem við höfum óhjákvæmilega tekið. Það er magnað hversu auðveldlega fer að hrikta í stoðum sjálfsmyndar og sjálfsöryggis um leið og korni efasemda hefur verið sáð.

Þar að auki munu margir hugsa sig tvisvar um áður en þeir hætta sér út á svalir í ókunnugum húsum eftir lestur þessarar bókar.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Bókmenntarýnirinn sem áhrifavaldur

Bókmenntir

Saga sem sannar að rómantíkin er ekki dauð