Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Dómurinn fjalli sérstaklega um synjun réttargæslumanns

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson
Landsréttur felldi í dag úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjaness varðandi réttargæslumenn fjögurra  kvenna í kynferðisbrotamáli. Héraðsdómur hafði úrskurðað í síðustu viku að lögmaðurinn, Sigrún Jóhannsdóttir, sem var réttargæslumaður kvennanna meðan á lögreglurannsókn stóð, fengi ekki að fengi ekki að gegna því hlutverki í dómsmálinu þar sem hinn ákærði ætlar að leiða hana fram sem vitni í málinu.

Landsréttur hefur nú fellt þessa ákvörðun héraðsdóms úr gildi og segir dómstólinn þurfa að fjalla sérstaklega um skipunina. Þá snéri rétturinn einnig við þeirri ákvörðun að Jóhannes S. Ólafsson fái ekki að gegna starfi réttargæslumanns í málinu, en Jóhannes er sambýlismaður Sigrúnar.

Sigrún segist í samtali við fréttastofu nú í kvöld vera sátt við þessa ákvörðun Landsréttar. „Ég tel eðlilegt að þetta verði tekið sérstaklega fyrir og að brotaþolar fái þá tækifæri til að tjá sig,“ segir hún en rétturinn hafði áður synjað konunum um að gera slíkt. „Það er ekki réttlát málsmeðferð að taka þessa ákvörðun án þess að raddir þeirra fái að heyrast.“

Kveðst Sigrún enn fremur fagna þeirri ákvörðun Landsréttar að skipun Jóhannesar sem réttargæslumaður einnar kvennanna fái að halda.

Ákærði, sem hefur starfað við að meðhöndla fólk með stoðkerfisvanda, hefur verið sakaður um kynferðisbrot af fjölda kvenna.

Samkvæmt 44. grein laga um meðferð sakamála getur sá sem kvaddur er til þess að gefa skýrslu sem vitni ekki gegnt réttargæslu í sama máli.