Biðlisti eftir því að fá að bakka fyrir dómarann

14.07.2020 - 15:28
Mynd með færslu
 Mynd: piqsels
Það er ekki víst að þeir sem nýlega keyptu hjólhýsi megi taka það með í fríið. Til að geta ekið með þunga eftirvagna þarf hluti ökumanna að næla sér í kerruréttindi og það er nokkurra vikna biðlisti eftir því að fá að bakka fyrir prófdómara Frumherja.

Hjólhýsin vinsæl

Í vor bárust fréttir af því að sala á ferðavögnum hefði rokið upp. Hjá Víkurverki hefur sala á hjólhýsum aukist um 40% frá síðast ári. Tölur Samgöngustofu styðja þetta. Það sem af er ári hafa 522 hjólhýsi verið nýskráð hjá stofnuninni,  allt síðasta ár voru þau 476.

Fengu réttindin í kaupbæti

Almenna reglan er sú að til að keyra bíl og ferðavagn sem vega samanlagt meira en þrjú og hálft tonn þarf að vera með BE-réttindi eða kerruréttindi eins og þau eru kölluð. Flestir ökumenn sem eru komnir yfir fertugt fengu þessi réttindi í kaupbæti þegar þeir tóku bílprófið en þeir sem tóku prófið eftir 15. ágúst 1997, þurfa að ná sér í þau. Arnar Barðdal, eigandi Víkurverks segir að oft virðist kaupendur ferðavagna ekki meðvitaðir um að þeir gætu þurft að bæta við sig réttindum. Svanberg Sigurgeirsson, deildarstjóri ökuprófa hjá Frumherja efast um að allir sem eiga að vera með þau séu það. Fólk skorti oft þekkingu og reglurnar séu svolítið ruglingslegar. „Sumir telja að þeir séu með þessi réttindi þó þau séu ekki með þau og aðrir telja sig ekki vera með þau þó þeir séu það. Þetta gengur í báðar áttir.“  

Þörf viðbót

Margir úr hópi þeirra sem fengu réttindin sjálfkrafa skella sér reyndar í prófið og Svanberg segir oft ekki vanþörf á. „Það hefur berlega komið í ljós og fæstir sem eru með þessi réttindi hafa verið að nota þau. Aðalvandamálið er að bakka þessu, fólk lendir í vandræðum með það. Sérstaklega með hjólhýsin, þessi stærri. Það er talsverður vandi að bakka þeim inn á tjaldsvæði og veitir ekkert af því að æfa það svolítið.“ 

Tveggja til þriggja vikna bið

Til þess þarf að fá réttindin þarf að ljúka fjórum til sex tímum hjá ökukennara og standast verklegt próf. Í heildina kostar þetta um 80 þúsund.  Svanberg segir ásókn í prófið hafa aukist mikið. Það sem af er ári hafa 260 fengið þessi réttindi hjá Frumherja, á sama tíma í fyrra voru það 156 og árið 2018 voru það 54. Aukningin byrjaði semsagt í fyrra.

Í ár hafa færri komist að en vilja.„Það er fullt af fólki sem bíður eftir að komast í þetta próf,“ segir Svanberg. 

Mynd með færslu
 Mynd: samgöngustofa

Vegna heimsfaraldursins féllu próf hjá Frumherja niður í sex vikur í vor og því ansi stór kúfur sem þarf að vinda ofan af. Þó að unnið sé á laugardögum segir Svanberg nýja ferðavagnaeigendur geta þurft að bíða í tvær til þrjár vikur, eftir að komast að. 

Samgöngustofa í herferð

Sigfús Ingi Sigmundsson, starfandi upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segist undanfarið hafa fengið mikinn fjölda af fyrirspurnum um eftirvagna og réttindi tengd þeim. Stofnunin hafi því ákveðið að koma upp sérstakri upplýsingasíðu og ráðast í herferð á samfélagsmiðlum. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi