Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Bárðarbunga skalf í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Jarðskjálfti af stærðinni 3,2 varð í Bárðarbungu laust fyrir klukkan eitt í nótt og annar, 2,5 að stærð, fylgdi fast á hæla honum. Skjálfti sem mældist 3,0 varð á sama stað tuttugu mínútum fyrir miðnætti. Nokkrir minni skjálftar, allir undir 2 að stærð, hafa orðið í Bárðarbungu síðasta sólarhringinn.

Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðngur á Veðurstofu Íslands, segir þetta í takt við hefðbundið skjálftamynstur á þessum slóðum. „Það er um mánuður frá síðustu þristum í Bárðarbungu, og þeir koma nú stundum í pörum,“ segir Einar Bessi. „Sá seinni var líklega tíundi skjálftinn í Bárðarbungu sem fer yfir þrjá, á þessu ári.“

Talið er að nokkuð kvikustreymi sé djúpt undir Bárðarbungu, en sú virkni sem mælist nú, segir Einar Bessi, er einnan eðlilegra marka og ekkert sem bendir til gosóróa.