Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þurfa að höfða mál gegn bæði nefnd og umsækjanda

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Verði frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um stjórnsýslu jafnréttismála að lögum þurfa þau sem ekki sætta sig við úrskurð kærunefndar jafnréttismála að höfða mál gegn bæði nefnd og umsækjanda.

Í lok maímánaðar úrskurðaði kærunefnd jafnréttismála að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefði brotið jafnréttislög með ráðningu Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins.

Ráðninguna hafði Hafdís Helga Ólafsdóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og einn umsækjenda um starfið, kært. Kærunefndin taldi Hafdísi Helgu ekki hafa notið sannmælis og samkvæmt núverandi lögum var eina leiðin fyrir ráðherra til að una ekki úrskurðinum að kæra Hafdísi Helgu.

RÚV greindi frá því í lok síðasta mánaðar að ráðherra hyggðist kæra Hafdísi Helgu. Henni hefur þó ekki enn verið birt stefna að sögn lögfræðings hennar, Áslaugar Árnadóttur.

Nefndarinnar sjálfrar að verja úrskurði sína

Hefði frumvarp  forsætisráðherra, sem birt var á samráðsgáttinni í byrjun þessa mánaðar, hins vegar verið orðið að lögum hefði menntamálaráðherra þurft að höfða mál gegn bæði kærunefndinni og Hafdísi Helgu.

Í frumvarpinu segir að enginn þekki betur á hvaða grunni úrskurður nefndarinnar er byggður en nefndin sjálf. Þess vegna sé rétt að kærunefndin sjái um að færa fram málsástæður og lagarök fyrir því af hverju úrskurður hennar sé löglegur og réttur, en ekki kærandi líkt og í núverandi lögum.

Líkt og í núverandi lögum er áfram  gert ráð fyrir að kærandi  fái málskostnað sinn fyrir Landsrétti og Hæstarétti greiddan úr ríkissjóði.  Að því er fram kemur í lýsingu með frumvarpinu þá er þessu ákvæði ætlað að koma í veg fyrir að einstaklingur láti hjá líða að bera mál sín undir kærunefndina af ótta við kostnaðinn sem af því kunni að hljótast.

Fréttin hefur verið leiðrétt.