Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Þá fyrst fattaði ég að Ísold væri fyrirsæta“

Mynd: Anna Maggý / Tides Magazine

„Þá fyrst fattaði ég að Ísold væri fyrirsæta“

13.07.2020 - 14:19

Höfundar

Ísold Halldórudóttir lærði að elska líkama sinn og sigraði í alþjóðlegri ljósmynda- og fyrirsætukeppni. Verðlaunin voru að fá að hitta stórstjörnuna Kendall Jenner sem spjallaði við og tók myndir af Ísoldu. Ísold fannst lengi hún ekki mega hafa rödd eða taka pláss því hún er feit.

Einelti í grunnskóla

Í langan tíma, í barnæsku og á unglingsárum, fannst Ísold Halldórudóttur hún ekki almennilega vera til, að minnsta kosti ekki á eigin forsendum. Hún hafi fyrst fundið fyrir einkennum brenglaðrar sjálfsvitundar þegar hún var í grunnskóla í Kaupmannahöfn og var þar lögð í einelti vegna þess að hún var feit. „Ég vildi ekki fara í skólann, hitta eða tala við neinn og ég var hrædd við að vera til fyrir aðra. Ég var alltaf að hugsa um hvernig ég ætti að líta út eða haga mér í kringum aðra svo þeim liði vel, fannst ég aldrei örugg í kringum félaga mína, fjölskyldu eða ókunnugt fólk,“ segir Ísold. Hún brá á það ráð að fela líkama sinn svo fólk skilgreindi hana ekki með tilliti til hans. „Þessar tilfinningar voru flóknar þegar ég var yngri og fannst ég ekki mega vera til og ekki mega taka pláss. Þá byrjaði ég í raun að vera engin.“

Fannst sjálfsagt að taka þátt

Sextán ára flutti Ísold til Íslands og fór að velta því fyrir sér hver hún væri og hvað hana langaði að gera í lífinu. Hún var að fletta í gegnum Instagram þegar hún rak augun í fyrirsætukeppni sem vakti áhuga hennar. Hún ákvað að slá til og taka þátt. „Þó ég sé alltaf að hugsa um líkamann og þori ekki að vera til þá fannst mér sjálfsagt að taka þátt í keppninni. Mér fannst það ekkert mikið mál og hugsaði: Æ, ég sæki bara um,“ rifjar hún upp. 

Hvað á að segja við Kendall Jenner?

Hún málaði sig, tók myndir með hjálp móður sinnar og svo sendu þær eina mynd inn í keppnina. Dómararnir féllu fyrir mynd Ísoldar og höfðu samband. „Þau fíluðu hana rosalega mikið,“ segir Ísold en niðurstöðurnar kættu fyrirsætuna ungu því verðlaunin voru ferð til Los Angeles og tækifæri til að vera mynduð af fyrirsætunni Kendall Jenner úr raunveruleikaþáttunum Keeping up with the Kardashians. „Ég fór til LA, hitti Kendall Jenner en var kannski ekkert rosalega mikið að tala við hana, enda hvað á maður að segja? Hæ, ég var að horfa á fjölskylduna þína í sjónvarpinu? Leiðinlegt það sem Rob er að ganga í gegnum? Ég get ekki bara sagt það,“ segir Ísold og hlær. 

„Þetta var svo vandræðalegt“

Og hún kann Jenner vel söguna. „Hún er ekki feit, hún er bara fullkomin en samt ótrúlega næs eða eins næs og maður getur verið þegar maður er rosalega frægur einstaklingur,“ segir Ísold. Þær skiptust aðeins á orðum og Jenner hrósaði Ísoldu fyrir áhugann á myndatökunni og sagðist kunna meta að hún væri nógu afslöppuð til að ræða við ljósmyndara og tæknifólk á settinu. Ísoldu varð hins vegar svo um við hrósið að hún misskildi það og taldi Jenner vera að hvetja sig til að spjalla við sig. Ísold brást við með því að hrósa eyrnalokkum fyrirsætunnar. „Þetta var svo vandræðalegt,“ rifjar Ísold upp og hlær. „Hún sagði bara takk og svo hélt ég áfram að vera stíf og alveg kjur að horfa í myndavélina.“

Gekk erfiðlega í fyrstu að fá fleiri verkefni

Myndatakan opnaði margar dyr fyrir Ísold en heimsfrægð öðlaðist hún ekki á einni nóttu. „Það var erfitt fyrst að þurfa að sætta sig við að þó þetta verkefni hafi verið stórt og tækifæri til að byrja upp á nýtt þá var það ekki nóg. Það gekk ekkert svakalega vel fyrir mig að fá verkefni út á þetta því Ísland er svo lítið land. Mér leiddist rosalega, fann fyrir að mig langaði að gera þessa hluti, að fara í myndatökur en það voru engin tækifæri til þess,“ segir hún. En árið 2019 fóru hjólin að snúast. „Þá byrjaði ég að vinna sem fyrirsæta. Þetta var ekki bara hobbí, ég var ekki bara að vinna með vinum mínum í einhverju stúdíói að taka myndir sem voru ekki að fara neitt.“

Feit og falleg

Hún sat fyrir í Love Magazine og hélt til Bandaríkjanna þar sem hún vann fyrir Universal Standard. Hún fór einnig í viðtal í ID Magazine og myndatöku fyrir Dazed. „Mig minnir að það hafi verið alveg 12 blaðsíður af mér í þessu risastóra tímariti. Ég held að fyrst þá hafi ég fattað að Ísold væri fyrirsæta.“

Þegar fyrstu skrefin voru stigin í fyrirsætuheiminum var Ísold mjög meðvituð um líkama sinn. „Þegar ég sat nakin fyrir þá tók ég eftir öllu. Hvað maginn minn væri stór, að ég væri með appelsínuhúð,“ segir hún. Fljótlega fór að örla á hugarfarsbreytingu og hún fór að viðurkenna fyrir sjálfri sér að hún væri feit en samt falleg. „Þegar ég spurði mig hvers vegna ég héldi að ég væri ljót því ég væri feit var svarið að það væri út af samfélaginu, út af öðrum tímaritum, því mér hefur verið sagt að vera önnur og líta öðruvísi út. Ég held það hjálpi þegar maður er að finna sjálfstraustið sitt að hugsa út fyrir rammann, hætta að líta á sig sem sex symbol og líta á sig sem listaverk.“

„Til að vera manneskja þarf maður að eiga erfiða daga“

En elskar hún sjálfa sig í dag? „Þetta er flókin spurning sem ætti að vera einföld. Augljósa svarið er já, að ég elski sjálfa mig eins og ég er en raunverulega held ég að það að elska sig sé ferli sem þú ert alltaf að vinna í. Suma daga elska ég mig ekki, finnst ég ótrúlega ljót og feit og ég upplifi að það sé rangt og ég megi ekki vera til,“ segir hún. „Ég held að til að elska sjálfa sig verði maður að upplifa svona daga til að átta sig á að það sé í lagi að vera til, það er í lagi að vera feitur og að vera mjór. Yfirhöfuð elska ég mig mjög mikið, finnst ég mjög falleg og sterk manneskja En til að vera manneskja þarf maður að eiga erfiða daga.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Ísold Halldórudóttur í Ástarsögum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Leyndur „tvíburabróðir“ Kendall Jenner stígur fram

Kim komið að frelsun sautján fanga

Tímarit um líkamsvirðingu