Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Svart útlit í minkarækt eftir hrun á skinnamörkuðum

13.07.2020 - 13:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Hrun varð í sölu minkaskinna í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og talsmaður íslenskra minkabænda segir útlitið afar svart. Ríkisstjórnin samþykkti nýlega að styrkja greinina um 80 milljónir króna á þessu ári.

Á föstudag hófst uppboð á minkaskinnum í Kaupmannahöfn þar sem skinn frá íslenskum bændum eru meðal annars til sölu.

„Skinnin eru ekki að seljast“ 

Einar Einarsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda, segir útlitið slæmt. „Smásalan er stopp, framleiðslufyrirtækin eru ýmist alveg stopp eða keyra á mjög litlum afköstum. Það endurspeglast svo á þessu uppboði núna og á uppboðum sem hafa verið hérna í júní, skinnin eru ekki að seljast.“ Og þetta setji allar áætlanir úr skorðum því í ársbyrjun hafi litið út fyrir að salan væri að glæðast.

Það verði að meta stöðuna og framhaldið í árslok

Það eru níu minkabú eftir hér á landi, voru tíu í byrjun árs, en einu búi var lokað í júní. Fyrr á árinu samþykktu stjórnvöld 80 milljóna króna stuðning við greinina, sem hluta af umhverfissamningi en að hluta vegna heimsfaraldursins. „Þessi peningur er veruleg hjálp fyrir bændur núna á árinu 2020,“ segir Einar. „Ég held að menn verði svo bara að setjast niður í lok árs og meta stöðuna. Hvernig menn meta markaðinn og framhaldið. En ríkið lýsti því yfir að það væri tilbúið að gera áframhaldandi samning við bændur og sú vinna á að fara fram nú á haustdögum. Þannig að það er mjög jákvætt fyrir greinina. En þetta er mjög snúin staða að spila úr fyrir bændur eins og þetta er í dag.“

Gæti setið uppi með 85% af framleiðslu síðasta árs

Einar rekur stærsta minkabú landsins í Skörðugili í Skagafirði. Og verði salan eins og útlit er fyrir, á því uppboði sem nú stendur, segist hann sitja uppi með um 85 prósent af framleiðslu síðasta árs. „Og það er eitthvað sem maður hefur aldrei nokkurntímann upplifað áður. Venjulega þegar maður er kominn fram í júlí, þá á maður svona um 20 prósent. En ef þetta ár ætlar að verða þannig, að menn selji ekki framleiðsluna frá síðasta ári nema að einhverju litlu leyti, þá verður mjög snúið fyrir menn að halda áfram inn í nýt ár.“