
Skógar Síberíu brenna í hitabylgju við heimskautsbaug
„Manngerð rigning“ gegn eldunum
Slökkviliðsmönnunum hefur þó orðið töluvert ágengt í baráttu sinni við eldana, sem loguðu á þrefalt stærra svæði fyrir nokkrum dögum. Þetta má fyrst og fremst rekja til þess að efnum hefur verið dreift í skýjabakka yfir skógareldum fjarri mannabyggðum, til að koma af stað rigningu. Það verkefni hefur gengið vonum framar.
Flogið er upp í skýjabakkana og milljónum örsmárra efnisagna sprautað inn í skýin, sem verður til þess að vatnsgufan þéttist utan um þær og myndar dropa, sem síðan falla til jarðar í formi regns. „Menn hafa í raun skapað tilbúna rigningu," hefur sænska ríkissjónvarpið SVT eftir veðurfræðingnum Nitzan Cohen.
46.000 ferkílómetrar brunnir
Í frétt SVT segir að umhverfisverndarsamtökin Greenpeace, sem fylgjast grannt með eldunum í Síberíu, staðfesti að rigningin hafi vissulega hjálpað til að slökkva eldana á nokkrum stöðum. Annars staðar hafi hins vegar nýir eldar blossað upp, svo sem nærri borgunum Irkutsk og Krasnoyarsk.
Sérfræðingar Greenpeace áætla að alls hafi ríflega 4,6 milljónir hektarar - eða 46.000 ferkílómetrar - af síberískum skógum brunnið frá áramótum.
Hitabylgja og hitamet
Miklir hitar hafa geisað í Síberíu síðustu vikur og Copernicus, umhverfisrannsóknastofnun Evrópusambandsins, upplýsir að meðalhitinn á norðurskautssvæðinu og Síberíu í júní hafi verið rúmlega fimm gráðum yfir meðallagi.
Hitamet var slegið á norðurskautssvæðinu laugardaginn 20. júní, þegar hitinn fór í 38 gáður í síberíska þorpinu Verkhoyansk. Hlýindin ýta undir að eldarnir logi áfram glatt, sem veldur gríðarlegri losun gróðurhúsalofttegunda, sem aftur ýtir undir frekari hlýindi.