Óttast að milljónir barna hætti í skóla

13.07.2020 - 11:54
epa000320268 Children sit inside a classroom in an innovative school design in Gando, Burkina Faso. The Primary School won the 2004 Aga Khan Award for Architecture on 28 November 2004 for projects that have attained the highest international standards of architectural excellence while reflecting the values of the primarily Muslim societies the projects are intended to serve.  The primary school "goes far beyond its educational programme and exemplifies highest-calibre architectural design employing locally available materials and techniques, training and community participation and empowerment".  EPA/SIMEON DUCHOUD-THE AGA KHAN AWAR
Skóli í Burkina Faso Mynd: EPA
Kórónuveirufaraldurinn hefur raskað skólagöngu barna víðs vegar um heim og er hugsanlegt að hátt í tíu milljónir barna snúi ekki aftur í skóla. Þetta segja samtökin Save The Children í nýrri skýrslu. 

Í skýrslunni vísa samtökin meðal annars í upplýsingar frá UNESCO, menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, frá apríl, en þá hafi 1,6 milljarðar barna ekki getað sótt skóla vegna aðgerða til að takmarka útbreiðslu kórónuveirunnar.

Í fyrsta skipti sem skólaganga heillar kynslóðar hafi rofnað á heimsvísu. Talið hafi verið að fyrir faraldurinn hafi um 258 milljónir barna og ungmenna ekki verið í skóla. 

Hætta sé nú á að mörg barnanna snúi aldrei aftur til náms. Faraldurinn hafi leitt til niðurskurðar á útgjöldum til menntunar og aukinnar fátæktar í heiminum. Í hóp hinna fátækustu kunni að bætast við allt að 117 milljónir barna. Þetta leiði til að fjöldi barna fari út á vinnumarkaðinn til að hjálpa fjölskyldum sínum og að fleiri stúlkur verði þvingaðar í hjónaband.

Ástandið sé einna viðkvæmast í tólf eftirfarandi löndum - Níger, Malí, Tsjad, Líberiu, Gíneu, Máritanía, Nígeríu, Senegal, Fílabeinsströndinni, Afganistan, Jemen og Pakistan.

Inger Ashing, framkvæmdastjóri Save The Children, segir að það kunni að dragast um mörg ár að efna það loforð sem heimsbyggðin hafi gefið um að tryggja öllum börnum viðunandi menntun fyrir árið 2030.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi