Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Norðurlandabúar og Þjóðverjar sleppa líklega við skimun

13.07.2020 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Þjóðverjar og Norðurlandabúar, að Svíum undanskildum, sleppa líklega við skimun á landamærunum samkvæmt nýjum lista yfir örugg ríki sem sóttvarnalæknir kynnir á næstu dögum. Þar með fækkar ferðamönnum sem þurfa skimun. Verði þeir hins vegar samt of margir þannig að fella þurfi niður flug er óljóst hver ber tjónið.

Kallaði eftir skýringum frá Íslandi

Sá sem úthlutar lendingarleyfum og skipuleggur í raun dagskrá Keflavíkurflugvallar heitir Frank Holton og vinnur hjá fyrirtækinu Airport Coordination í Danmörku. Hann lét hafa eftir sér á vefnum Túristi.is í dag að um miðja þessa viku væru svo mörg flug á dagskrá að fella þyrfti niður allt að sex á dag til að halda ferðamönnum sem þurfa skimun undir 2000 manna hámarkinu.

Hann kallaði einnig eftir því að íslensk stjórnvöld útskýrðu fyrir honum hvað hann ætti að gera – hvernig hann ætti þá að forgangsraða flugfélögum og svo framvegis. Eftir fund íslenska samhæfingarteymisins í hádeginu varð ljóst að málið væri úr höndum Holtons – komi til þessara ákvarðana verða þær á hendi Samgöngustofu hér heima.

Enn hægt að senda fólk einfaldlega í sóttkví

„Hingað til hefur þetta kannski gengið upp með góðu samstarfi allra aðila en nú fer að reyna verulega á, virðist vera, vegna áhuga ferðamanna á að koma til landsins,“ segir Páll Þórhallsson, verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu.

Páll segist ekki vita hvernig verði valið á milli flugfélaga ef þau komast ekki öll að, en bendir á að hingað til hafi allir mátt koma – flugfélög hafi sjálf hætt við til að forða farþegum frá sóttkví.

„Auðvitað hefur sóttvarnalæknir væntanlega alltaf það úrræði – að ef ekki komast allir í skimun þá er það bara sóttkvíin,“ segir Páll.

Býst við að kynna lengri lista í vikunni

Það er þó ekki víst að til niðurfellinga komi alveg strax, því sóttvarnalæknir kynnir bráðlega lengri lista yfir örugg lönd, þar sem fyrir eru Færeyjar og Grænland. Fólk þaðan sleppur við skimun.

Heldurðu að listinn verði kynntur í þessari viku?
„Ég á alveg eins von á því, já,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Hvaða lönd verða á þessum lista?
„Það er ekki alveg endanlega ákveðið en mér sýnist það verða Norðurlöndin – nema Svíþjóð kannski – og hugsanlega Þýskaland.“

Þórólfur segir að það hafi verið meiri og vaxandi þrýstingur á að fá fleiri farþega til landsins og um Keflavíkurflugvöll. „Og það vissulega spilaði inn í að við flýttum þessu ferli en það var ekki úrslitaatriði í þessu.“

Ótímabært að segja til um ábyrgð á niðurfellingu

En ef flug verður fellt niður þá verður einhver fyrir tjóni, og þá vaknar spurningin um hver ber það – eru það farþegar, flugfélögin, Isavia, eða kannski ríkið?

„Ég held að það sé bara ekki alveg tímabært að spá í það enn þá,“ segir Páll. „Það eru auðvitað enn og aftur sóttvarnir sem eru í fyrirrúmi og auðvitað viljum við forðast bótakröfur og bótaskyldu, hið opinbera, en það getur auðvitað falið í sér röskun fyrir hina og þessa. “

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV