Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lög­reglu­fé­lög mót­mæla lokun fangelsisins

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Stjórnir Lögreglufélags Eyjafjarðar og Lögreglufélags Þingeyinga mótmæla fyrirhugaðri lokun Fangelsisins á Akureyri. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félögunum.

Neikvæð áhrif á löggæslu á Norðurlandi eystra

Félögin gangnrýna ákvörðunina nokkuð harðlega og segja ekki hafa verið tekið tillit til allra þátta við ákvarðanatökuna. Þá segja þau ákvörðunina hafa mjög neikvæð áhrif á löggæslu á Norðurlandi eystra.

„Í fyrsta lagi standast tæplega fullyrðingar um að fangelsið á Akureyri sé óhagkvæm rekstrareining. Í öðru lagi virðist hafa gleymst að horfa til þess óhagræðis sem lokunin mun hafa fyrir lögregluna á svæðinu. Fangelsið á Akureyri og Lögreglan á Akureyri deila húsnæði og hefur um árabil verið náið samstarf milli stofnanna, til hagsbóta og hagræðis fyrir stofnanirnar báðar og um leið fyrir ríkið,“  segir í yfirlýsingunni.  

Efast um óhagkvæmi fangelsisins

Lögreglufélögin segja fangelsið á Akureyri nýti aðeins 4,5 prósent af því fjármagni sem Fangelsismálastofnun sé úthlutað með fjárlögum. Hins vegar sjái fangelsið fyrir meira en 6 prósent fangelsisrýma á landinu. 

„Þetta er í samræmi við skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2010, sem benti á að hvert pláss væri ódýrara í Fangelsinu á Akureyri en í öðrum lokuðum fangelsum sem þá voru starfrækt og fangelsið væri einmitt hagkvæm rekstrareining vegna samstarfsins við lögreglu.“ 

Aukið flækjustig

„Þá myndi lokunin einnig auka mjög flækjustig við rannsóknir mála þar sem sakborningar sæta gæsluvarðhaldi. Það er ljóst að það fyrirkomulag sem er í dag, með Fangelsið á Akureyri áfram opið og í samstarfi við lögreglu telst áfram hagkvæmur kostur fyrir Lögregluna á Norðurlandi eystra, fyrir Fangelsismálastofnun og þá um leið fyrir ríkið.“ 

Fleiri hafa mótmælt

Bæjarstjórn Akureyrar hefur einnig mótmælt aðgerðinni og sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Þar segir meðal annars að ákvörðunin gangi þvert á yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins. 

Í yfirlýsingunni, segir að stefna stjórnvalda hafi verið að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni og því skjóti það skökku við að fangelsismálayfirvöld taki einhliða og án nokkurs fyrirvara ákvörðun um að loka fangelsinu á Akureyri og leggja þar með niður fimm störf í bænum. Bæjarstjórn krefst þess að stjórnvöld grípi tafarlaust í taumana og ógildi þessa ákvörðun.

Ólíðandi að taka slíka ákvörðun í trássi við stefnu stjórnvalda

„Bæjarstjórn Akureyrar telur með öllu ólíðandi að Fangelsismálastofnun geti í trássi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda í byggðamálum og án samráðs við sveitarstjórnir á svæðinu tekið slíka ákvörðun um að flytja fimm störf af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið og þar með sett löggæslu á svo stóru svæði landsins í algjört uppnám,“ segir í yfirlýsingu frá bæjarstjórn Akureyrar.