Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kemur alls ekki til greina að hætta við flutning

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Félagsmálaráðherra segir ekki koma til greina að hætta við flutning brunavarnasviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þrátt fyrir aðvaranir um að flutningurinn veiki starfsemina.

Formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hefur sagt að ákvörðun félagsmálaráðherra að flytja nýtt brunavarnasvið HMS á Sauðárkrók sé glórulaus. Við blasi að flutningarnir muni veikja starfsemina enda ætli enginn af þeim sérfræðingum sem nú starfa við brunavarnir að flytja norður.

Gamaldags hugsun að allt þurfi að vera í Reykjavík

Félagsmálaráðherra segir að það sé yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að þegar ný svið verði til, þá séu þau staðsett úti á landi. Í raun eigi að flytja fleiri störf út á land en gert er. Hann segir alls ekki koma til greina að endurskoða ákvörðunina þrátt fyrir aðvaranir formanns LSS. „Það er alveg ljóst að við erum að stórefla brunavarnir, við erum að fjölga þeim starfsmönnum sem eru að sinna átaki í brunavörnum og ég segi það aftur að það er gamaldags hugsun að horfa til þess að það þurfi allar opinberar stofnanir að vera staðsettar í miðbæ Reykjavíkur helst og í kjarnanum í kringum miðbæinn vegna þess að það hefur sýnt sig að gefa góða raun þegar þær eru starfandi vítt og breitt um landið.“

Góðar umsóknir í laus störf

Ásmundur Einar óttast ekki að flutningurinn komi niður á brunavörnum. „Ég hef heimildir fyrir því að þeir hafi verið að fá mjög góðar umsóknir í þau störf sem hafa verið auglýst og það er auðvitað líka þannig að það er gamaldags hugsun að það sé ekki hægt að manna opinber störf úti á landi.“

Hafa þessir umsækjendur þá þekkingu sem núverandi starfsmenn hafa? „Það er auðvitað Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem sér um að ráða í þessi störf. Ég segi bara eins og ég hef sagt áður að það hefur sýnt sig að það er hægt að manna opinber störf úti á landi. Það er gamaldags mýta að það sé ekki hægt að vera með sérfræðistörf utan höfuðborgarinnar og miðbæjar Reykjavíkur,“ segir Ásmundur Einar.