Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hungur vex í heiminum

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Hungur hrjáir nánast einn af hverjum níu jarðarbúum. Ástandið versnar á þessu ári, ekki síst vegna COVID-19 farsóttarinnar.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Sameinuðu þjóðanna um fæðuöryggi og lífsviðurværi í heiminum. Þar segir að matvælaskortur sé ein afleiðing þess að hægt hefur á hagkerfum heimsins vegna farsóttarinnar og mengunar andrúmsloftsins. Því fari þeim fjölgandi sem ekki hafi efni á að kaupa næringarríkan mat.

Ástandið hafi versnað smám saman allt frá árinu 2014. Að sögn skýrsluhöfunda svelta hátt í 690 milljónir jarðarbúa, það er 8,9 prósent heildarfjöldans. Fjölgunin nemur 60 milljónum síðastliðin fimm ár. Miðað við núverandi þróun er talið útilokað að ná því heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna, sem sett var fyrir fimm árum, að útrýma hungri í heiminum árið 2030. Þvert á móti er útlit fyrir að fjöldinn verði orðinn 890 milljónir að tíu árum liðnum, það er 9,8 prósent jarðarbúa.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðasjóður um þróun landbúnaðar, Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna stóðu að gerð ársskýrslunnar.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV