Hefja samstarf við airBaltic um sammerkt flug

Mynd með færslu
 Mynd: Icelandair
Icelandair hefur undirritað samning við lettneska flugfélagið airBaltic um sammerkt flug félaganna.

Um er að ræða samstarfssamning sem felur í sér að bæði flugfélögin geta selt og gefið út flugmiða hvort hjá öðru. Þannig geta viðskiptavinir Icelandair keypt einn farseðil frá Íslandi eða Bandaríkjunum til tiltekinna áfangastaða airBaltic í Eystrasaltsríkjunum og Austur Evrópu. Á móti, geta viðskiptavinir airBaltic keypt miða til Íslands og yfir hafið til áfangastaða Icelandair í Norður Ameríku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu í dag. 

Sammerkt flug (e. codeshare) er viðskiptasamband milli tveggja eða fleiri flugfélaga sem auglýsa tiltekið flug sem hluta af sinni flugáætlun en aðeins eitt flugfélaganna flýgur sjálft flugið. Hin flugfélögin sem auglýsa flugið undir sínum merkjum geta samt bætt eigin flugnúmeri við flugið. 

Þannig geta viðskiptavinir bókað eitt flug í stað tveggja  þegar millilandaflug er bókað hjá  flugfélögum sem hafa samið um sammerkt flug.

„Með því að tengja leiðakerfi Icelandair við airBaltic bjóðum við viðskiptavinum okkar aukna valmöguleika þegar kemur að tengingum í Eystrasaltsríkjunum og Austur Evrópu. Á móti geta viðskiptavinir airBaltic nýtt sér mikilvægar tengingar til Íslands og yfir hafið til fjölda áfangastaða okkar í Norður Ameríku. Samstarfið styrkir Keflavíkurflugvöll sem tengimiðstöð og styður við fjölgun ferðamanna, ” segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Martin Gauss, forstjóri airBaltic segir:

„Það er okkur sönn ánægja að gera samstarfssamning við öflugt félag á borð við Icelandair. Samstarf félaganna eykur valmöguleika viðskiptavina á flugi til Eystrasaltsríkjanna og með flugi í gegnum Riga til Búdapest, Prag, Varsjá og fleiri áfangastaða.“

Icelandair hefur áður gert samning um sammerkt flug meðal annars við bandaríska flugfélagið jetBlue til áfangastaða í Norður- og Suður-Ameríku og Alasa Airlines.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi