Baggalútur og Dream Wife með nýtt efni

Mynd: Rakel Mjöll Leifsdóttir / Einkasafn

Baggalútur og Dream Wife með nýtt efni

13.07.2020 - 15:00

Höfundar

Það er langt frá síðustu Undiröldu en það gerir hana því miður ekki lengri en venjulega. Í boði er fjölbreyttur tónlistarpakki af alls konar poppi, iðandi indírokki, mjúkum mönnum og glerhörðu framúrstefnurappi.

Dream Wife – Temporary

Stöllurnar þrjár í Dream Wife sendu frá sér nýja plötu í byrjun júlí með laginu Temporary. Eins og sumir tónlistarunnendur muna kannski er sveitin frá Brighton og skartar íslensku tónlistar- og söngkonunni Rakel Mjöll.


Baggalútur – 10 Dropar

Grín og jólahljómsveitin Baggalútur sendi frá sér sérlegan hásumarsmell í vikunni. Tilefni var einmuna veðurblíða og nýtt innanlandsmet í bongói. Lagið kallast Tíu dropar af sól en það mun að sögn Baggalúts sjálfs vera akkúrat það magn af sólskini sem nægir einni manneskju til að halda sönsum á árinu 2020.


Draumfarir – Bjartar nætur

Flugfreyjurnar og tónlistarmenninrnir Birgir Steinn Stefánsson og Ragnar Már Jónsson hafa sent frá sér lagið Bjartar nætur sem er fyrsta lagið með dúettinum Draumförum. Fyrsta plata Draumfara er í vinnslu og verður tíu laga gripur sem er væntanlegur í lok árs.


Emmsjé Gauti –Þrá

Sólóplata Emmsjé Gauta, Bleikt ský, kom út í byrjun júlí og á henni eru stórsmellirnir Malbik og Bleikt ský. Nú róar gaurinn sig niður og leyfir okkur að kynnast rómantíska Gauta sem kveikir á kertum í laginu Þrá.


Ingunn Huld Sævarsdóttir – Woman

Ingunn Huld Sævarsdóttir sýnir okkur að það geta fleiri verið á rólegu nótunum en Gauti. Tónlistarkonan hefur einvalalið tónlistarfólks með sér í laginu Woman sem er tekið af plötu hennar Cycles & Tides.


Stuðlabandið – Sýndu mér múvs

Að eigin sögn er Stuðlabandið, sem sendi frá sér lagið Sýndu mér múvs á dögunum, ein allra vinsælasta ballhljómsveit landsins í dag. Hljómsveitin er frá 800 Selfossi og þekkt fyrir lagaval, spilagleði og sviðsframkomu.


Jónsi – Swill

Heill áratugur er frá útgáfu síðustu breiðskífu SigurRósar Jónsa, Go, þannig að það er löngu kominn tími á nýja skífu frá kappanum. Sú kemur bráðlega og inniheldur 11 lög. Í lok júní var gefið út annað lagið sem heyrist af plötunni Shiver, Swill, sem fer vel af stað á Spotify.


Dirb ft. Kött Grá Pé – Kattarkvæði

Átta laga hljómplata sveitarinnar Dirb kom út á dögunum og á henni er  Kattarkvæði. Í laginu stekkur Kött Grá Pé til og hjálpar Dirb við tónlistarsköpunina.