Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Allt útlit fyrir að verkfall hefjist á miðnætti

13.07.2020 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Elís Jónsson
Engir fundir eru boðaðir í kjaradeildu undirmanna á Herjólfi í dag. Að óbreyttu hefst verkfall því á miðnætti og stendur í tvo sólarhringa.  Deilan er í hnút og samningsaðilar ræddust ekkert við um helgina. 

Vonar að fólk hafi haft tíma til að hugsa

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., segist í samtali við fréttastofu vona að fólki hafi um helgina gefist andrými til að hugsa málin. Hann segir að ekki hafi verið boðað til samningafundar í dag, en útilokar samt ekki að menn reyni að ná saman, þrýstingurinn sé til staðar. 

Jónas Garðarson, formaður samninganefndar Sjómannafélags Íslands, segir að félagið hafi gert stjórn Herjólfs tilboð fyrir helgi en því hafi verið hafnað, þá liggi kröfugerðin fyrir órædd og til að ná sátt þurfi að nálgast þær kröfur. Útgerðin verði því að eiga frumkvæði að frekari viðræðum, eigi að stofna til þeirra í dag. 

Fleiri ferðir en venjulega

Fleiri ferðir verða farnar í dag en alla jafna. Á vefsíðu Herjólfs eru farþegar hvattir til að fara fyrr en seinna. Fram kemur að gefin verði út tilkynning ef verkfallsáformin breytast. 

Verkfallið sem að óbreyttu skellur á á miðnætti á að standa í tvo sólarhringa. Eftir viku hefur verið boðað til annars verkfalls, sem á að standa í þrjá sólarhringa. 

Í atkvæðagreiðslu var ákveðið að verkföll færu fram í fyrst, annarri og þriðju viku júlímánaðar. Ekki í fjórðu viku eins og áður hafði komið fram.