Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Á fjórða hundrað fyrirtæki hafa sótt um lokunarstyrki

Lokunarstyrkir vegna COVID-19
 Mynd: RÚV
Sótt hefur verið um COVID-lokunarstyrki fyrir tæpar 400 milljónir króna, á þeim mánuði sem liðinn er síðan opnað var fyrir umsóknir. Gert var ráð fyrir að styrkirnir gætu numið tveimur og hálfum milljarði.

Lokunarstyrkir eru að hámarki 2,4 milljónir hver og er ætlað að koma til móts við fyrirtæki sem urðu fyrir tjóni þegar þeim var skipað að loka vegna COVID. Hárgreiðslu- og nuddstofur og barir eru góð dæmi. 

Áætlað var að um 2.000 fyrirtæki gætu átt rétt á slíkum styrkjum og að þeir gætu kostað ríkið tvo og hálfan milljarð króna. Í gær var réttur mánuður síðan opnað var fyrir umsóknir og enn er langt í þær tölur. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum hafa nú 367 fyrirtæki sótt um samtals 392 milljónir króna og búið er að greiða 264 þeirra út 271 milljón. 

Önnur úrræði eru skemmra á veg komin. Stóru viðskiptabankarnir hafa til að mynda enn ekki veitt eitt einasta brúarlán með 70% ríkisábyrgð sem í heild átti að geta numið tæpum 50 milljörðum. Lánin voru ætluð stærri fyrirtækjum og voru eitt aðalúrræðið í fyrsta aðgerðapakka stjórnvalda sem kynntur var 21. mars. Samkvæmt upplýsingum frá bönkunum uppfylla fá fyrirtæki skilyrði fyrir láninu og ferlið þykir nokkuð þungt í vöfum. 

Sárafá fyrirtæki hafa sótt um brúarlán, en slíkar umsóknir eru til meðferðar í tveimur stóru bankanna.

Í síðustu viku var opnað fyrir umsóknir um stuðningslán til smærri og meðalstórra fyrirtækja með allt að fullri ríkisábyrgð og margir tugir slíkra umsókna hafa þegar borist.