Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tugir þúsunda mótmæltu Pútín og handtöku héraðsstjóra

12.07.2020 - 03:46
Íbúar Khabarovsk, stærstu borgar austasta hluta Rússlands, mótmæla handtöku héraðsstjórans Sergei Furgal. Furgal er sakaður um að hafa fyrirskipað morð á þremur kaupsýslumönnum árið 2005, en fylgjendur hans eru sannfærðir um að pólitík sé að baki handtökunni, enda Furgal vinsæll stjórnmálamaður en í öðrum flokki en flokki Pútíns, Sameinuðu Rússlandi.
Kabarovsk-búar mótmæla handtöku héraðsstjórans  Mynd: AP
Tugir þúsunda fylktu liði á götum rússnesku borgarinnar Khabarovsk í gær til að mótmæla handtöku héraðsstjóra samnefnds héraðs syðst í Austur-Rússlandi. Héraðsstjórinn, Sergei Furgal, var handtekinn á fimmtudag, sakaður um að hafa fyrirskipað morð á minnst þremur kaupsýslumönnum fyrir fimmtán árum. Mótmælendur gengu að höfuðstöðvum héraðsstjórnarinnar í Khabarovsk-borg og hrópuðu meðal annars slagorð gegn Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Heimildir greinir á um fjölda mótmælenda og hafa heyrst tölur allt frá 5.000 upp í 40.000, en borgarbúar eru um 600.000. Furgal bar sigurorð af frambjóðanda ríkisstjórnarflokksins, Sameinaðs Rússlands, í héraðsstjórakosningum í Khabarovsk fyrir tveimur árum.

Harðlínu þjóðernissinni sem fylgir þó Kremlín að málum

Flokkur Furgals, Frjálslyndi lýðræðisflokkur Rússlands, er flokkur harðlínu-þjóðernissinna, og er af stjórnmálaskýrendum talinn nokkuð hollur Kremlarstjórninni í flestum málum.

Sömu stjórnmálaskýrendur upplýsa BBC hins vegar um að sigur Furgals - sem var mikill og ótvíræður - hafi verið talsvert áfall fyrir Pútín og Sameinað Rússland, og þótt benda til þess að tök Kremlar á austurhéruðunum væru að veikjast.

Á myndskeiðum frá mótmælunum má heyra þátttakendur hrópa slagorð á borð við „Frelsi!“, „Pútín er þjófur“ og „Pútín, segðu af þér!" Í frétt BBC segir að fámennari mótmæli hafi einnig farið fram í allmörgum bæjum öðrum í héraðinu.

Telja pólitík að baki handtökunni

Furgal var handtekinn 9. júlí og fluttur til Moskvu þar sem hann bíður réttarhalda. Hann er ákærður fyrir að hafa fyrirskipað þrjú morð á árunum 2004 og 2005. Tvö þeirra voru framin, en hið þriðja fór út um þúfur.

Sarah Rainsford, fréttaritari BBC í Moskvu, segir fylgjendur Furgals, sem nýtur mikilla vinsælda heimafyrir, sannfærða um að ákæran og handtakan eigi sér pólitískar rætur. Þeir vilji vita hvers vegna stjórnvöld hafi beðið með handtaka hann þar til nú, segir Rainsford, 15 árum eftir meint brot hans.

Ekki var sótt um leyfi fyrir mótmælunum, eins og lög kveða á um, og í þeim fólst einnig skýlaust brot á núgildandi sóttvarnarlögum og samkomubanni. Engu að síður hélt lögregla sig til hlés og greip ekki inn í.