Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Telja íbúum stafa hætta af vanhirtum húsum

12.07.2020 - 17:16
Mynd með færslu
 Mynd: Íbúasamtök miðborgar Reykjav
Stjórn Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur skorar á embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur að koma í veg fyrir að hús í miðbænum geti staðið auð og vanrækt í áratugi. Þá skora þau á borgarfulltrúa og þingmenn Reykjavíkurkjördæmis norður að tryggja með lögum og reglugerðum að eigendur húsa komist ekki upp með að láta þau standa auð og vanrækt um langa hríð. 

Þetta kemur fram í ályktun frá Íbúasamtökum miðborgar Reykjavíkur sem gefin var út í dag. Í greinargerð sem fylgir ályktuninni kemur fram að samtökin hafi undanfarið rætt ástand tiltekinna húsa í miðbænum. „Ekki nóg með að ástand umræddra húsa sé til mikilla lýta heldur fylgir þeim hætta fyrir nágranna þar á meðal brunahætta.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Íbúasamtök miðborgar Reykjav
Mynd með færslu
 Mynd: Íbúasamtök miðborgar Reykjav
Mynd með færslu
 Mynd: Íbúasamtök miðborgar Reykjav

Í greinargerðinni benda samtökin á eftirfarandi:  

  • Í a-lið 1. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að markmið þeirra laga sé að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi m.a. með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt. 
  • X. kafli laganna fjallar um rannsóknir, þvingunarúrræði og viðurlög.  Þar er m.a. að finna 56. gr. laganna sem fjallar sérstaklega um aðgerðir sem sveitarfélög geta beitt til að knýja fram úrbætur. Í þessari lagagrein segir í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart  og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er.  
  • Í 2. mgr. kemur fram að byggingarfulltrúa sé heimilt að beita dagsektum allt að 500.000 kr. á dag til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögum um mannvirki og byggingarreglugerð. 
  • Í 3. mgr. kemur fram  að byggingarfulltrúi geti látið vinna verk sem hafa lagt fyrir að unnið skyldi á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið. 
  • Í 4. mgr. segir að dagsektir og kostnað skv. 2. og 3. mgr. megi innheimta með fjárnámi og hefur sveitarfélag lögveð fyrir kröfu sinni í viðkomandi fasteign.