Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tæplega 25 prósent þegar búin að kjósa

12.07.2020 - 14:13
epa08541729 People cast their ballot at a polling station during the presidential elections run-off in Bukowina Tatrzanska, Poland, 12 July 2020. Poles head to the polls for the second round of the presidential elections.  EPA-EFE/Grzegorz Momot POLAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - PAP
Nýtt met var slegið í hádeginu í kjörsókn í forsetakosningunum í Póllandi þegar tæplega 25 prósent kjósenda höfðu þegar skilað sér á kjörstað. Síðari umferð forsetakosninganna er í dag. Kórónuveirufaraldurinn virðist því ekki hafa komið í veg fyrir að fólk mætti til að kjósa.

Kosið er milli sitjandi forseta, Andrzej Duda, sem er íhaldsmaður og fyrrum þingmaður stærsta stjórnmálaflokks Póllands, Laga og réttlætis og Rafal Trzaskowski, borgarstjóra Varsjár. Honum hefur verið lýst sem frjálslyndum Evrópusinna.

Langar raðir hafa verið við kjörstaði og reynt að gæta þess að nóg bil sé milli fólks til að koma í veg fyrir smit. Kjósendum er einnig skylt að vera með andlitsgrímur, nota handspritt og koma með eigin skriffæri á kjörstað. Þá eiga aldraðir, barnshafandi konur og foreldrar með börn að njóta forgangs á kjörstað. 

Gert er ráð fyrir að fyrstu tölur verði birtar klukkan 19 í kvöld að íslenskum tíma.