Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Spenna í loftinu á kjördag í Póllandi

12.07.2020 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Pólverjar kjósa sér forseta í dag þegar önnur umferð kosninganna fer fram. Samkvæmt skoðanakönnunum virðist fylgi frambjóðendanna tveggja vera hnífjafnt og því er töluverð spenna í loftinu.

Sitjandi forseti, Andrzej Duda, er íhaldsmaður og fyrrum þingmaður stærsta stjórnmálaflokks Póllands, Laga og réttlætis. Hann hefur verið gagnrýninn á stefnu Evrópusambandsins og hefur verið lýst sem bandamanni Donalds Trump, Bandaríkjaforseta. Mótframbjóðandinn, Rafal Trzaskowski, er borgarstjóri Varsjár, og hefur honum verið lýst sem frjálslyndum Evrópusinna. 

Forsetinn getur haft töluverð áhrif á gang mála

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, hefur fylgst vel með þróun mála í aðdraganda kosninganna og er nú í Póllandi í sumarfríi. Pawel segir að miklu máli skipti fyrir ríkisstjórnina hver sitji á forsetastóli. Forsetinn hafi neitunarvald í umdeildum málum og geti haft frumkvæði að lagabreytingum. „Það getur orðið auðvitað til þess að ríkisstjórnin geti ekki komið í gegn sínum málum sem að eru annaðhvort umdeild eða skipta hana máli,“ segir hann. Stjórnarandstaðan hafi í síðustu þingkosningum náð meirihluta í efri deild þingsins. „Þetta gæti því fækkað mjög leikjum hjá sitjandi þingmeirihluta ef þeir missa forsetaembættið yfir til stjórnarandstöðunnar.“

epa08376910 Polish President Andrzej Duda during a press conference broadcast by TVP at the Presidential Palace in Warsaw, Poland 16 April 2020.  EPA-EFE/Pawel Supernak POLAND OUT
Andrzej Duda, forseti Póllands. Mynd: EPA-EFE - PAP

Skýrar línur meðal stuðningsmanna

Pawel segir að kosningarnar núna snúist fyrst og fremst um hvort fólk vilji nýjan í embættið og um þá heildarstefnu sem ríkisstjórnin hafi myndað, en hún þyki í íhaldssamari kantinum. Sitjandi forseti hlaut flest atkvæði í fyrri umferð kosninganna en ekki yfir 50 prósent og því var haldin önnur umferð. Trzaskowski hefur bætt töluvert við sig fylgi síðustu daga, samkvæmt könnunum. Pawel segir ljóst að hann sæki fylgi sitt til fólks sem styðji stjórnarandstöðuflokkana. Fylgi Duda komi aftur á móti frá stuðningsmönnum ríkisstjórnarflokksins Laga og réttlætis. Þá hafa kannanir sýnt að Duda sé heldur vinsælli í austurhluta landsins, í dreifbýli og minni borgum. Borgarstjórinn sæki aftur móti fylgi til vesturhlutans og stærri borga. 

Gerðar hafa verið skoðanakannanir á hvort stuðningsmönnum finnist sinn frambjóðandi vera draumaframbjóðandinn. 70 prósent stuðningsmanna Duda sögðu svo vera en 30 prósent stuðningsmanna Trzaskowskis. 

Tólf skoðanakannanir voru gerðar á fimmtudag og föstudag og samkvæmt sjö þeirra er Duda með flest atkvæði en í fimm þeirra er það borgarstjórinn Trzaskowski. Það stefnir því í spennandi kosningar. „Ef að örin ætti að halla í aðra hvora áttina þá hallar hún örlítið í átt til Duda en það er mjög lítill munur, þannig að það getur sannarlega farið á hvorn veginn sem er og það er talsverð spenna í loftinu vegna þess.“

epa08539567 Mayor of Warsaw and candidate for Poland's president of main opposition party Civic Platform and Civic Coalition's Rafal Trzaskowski (L) with daughter Ola (C) attends his meeting with local residents during his visit in Rybnik, south Poland, 10 July 2020.  EPA-EFE/Hanna Bardo POLAND OUT
Rafal Trzaskowski, borgarstjóri Varsjár og forsetaframbjóðandi. Mynd: EPA-EFE - PAP

 

Mættust ekki í kappræðum

Pawel segir athyglisvert að frambjóðendurnir tveir hafi ekki mæst í kappræðum fyrir aðra umferð kosninganna. Einkareknar stöðvar hafi boðið Duda til kappræðna en hann hafi ekki þegið boðið. Að sama skapi þáði Trzaskowski ekki boð um að mæta í kappræður á vegum ríkissjónvarps Póllands, sem Pawel bendir á að hafi verið sakað um hlutdrægni í garð núverandi stjórnvalda. Aftur á móti héldu frambjóðendurnir blaðamannafundi á sama tíma. Pawel segir þetta ef til vill merki um titring í hópi skipuleggjenda baráttunnar hjá báðum frambjóðendum. Þeir vilji ekki mæta á viðburði þar sem þeir hafi ekki fulla stjórn á aðstæðum. 

Forseti efri deildarinnar hélt óvænt ávarp til þjóðarinnar

Eins og áður sagði er stjórnarandstaðan í meirihluta í efri deild þingsins. Á föstudag hélt forseti deildarinnar ávarp og hvatti fólk til að mæta á kjörstað. Samkvæmt lögum hefur forsetinn heimild til að halda slíkt ávarp. Pawel segir að sá réttur hafi ekki verið nýttur á þennan hátt áður og að þetta hafi verið óvænt útspil á lokametrum kosningabaráttunnar. Það verði því áhugavert að sjá hvort lögum um ávörp forseta þingdeildarinnar verði breytt í kjölfarið.