Raunhæft að minnka matarsóun um helming á tíu árum

Mynd: Rúv / Samsett mynd
Að minnka matarsóun hér á landi um helming á næstu tíu árum er mjög raunhæft verkefni. Þetta segir Gréta María Grétarsdóttir, formaður Matvælasjóðs, sem jafnframt situr í starfshópi um aðgerðaáætlun gegn matarsóun. Hún segir samstarf smásala og framleiðenda um framboð og eftirspurn afar mikilvægt. 

Starfshópurinn skilaði umhverfisráðherra tillögum sínum að aðgerðaáætlun gegn matarsóun í lok júní og verða þær í almennri kynningu í samráðsgátt stjórnvalda til 31. júlí. Starfshópurinn er skipaður fulltrúum úr allri virðiskeðju matvæla, allt frá ræktun til framleiðslu og neyslu.  

Vilja minnka matarsóun um helming á næstu tíu árum

Tillögurnar eru alls 24, 14 aðgerðir sem stjórnvöld bera ábyrgð á að komist til framkvæmda og 10 á ábyrgð atvinnulífsins. Draga á úr matarsóun um fimmtíu prósent fyrir árið 2030, gera átak í menntun og fræðslu, innleiða hagræna hvata og koma á samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda gegn matarsóun, svo fátt eitt sé nefnt. 

Gréta segist bjartsýn á að hægt verði að fylgja þeim markmiðum sem starfshópurinn leggur til. „Við vitum það líka alveg að fólki er að fjölga og þegar fólki fjölgar þá er ekki endilega lausnin að framleiða meira heldur felst lausnin í því að nýta það sem þegar er til og nú þegar er framleitt,“ segir hún.  

Mikilvægt að hvetja smásala til að hafa matarsóun í huga 

Hver Íslendingur sóar 90 kílóum af mat árlega. Gréta María segir að ungt fólk sé orðið miklu meðvitaðra um matarsóun en áður, hvetja þurfi veitingahús til að bjóða upp á smærri skammta og poka fyrir afganga til að taka með heim. Gréta María var fjármálastjóri og framkvæmdastjóri Krónunnar um árabil og þekkir því vel til smásölu. Hún segir lykilatriði gott samstarf smásala, framleiðenda og heildsala um framboð og eftirspurn. 

„Það er fullt af aðgerðum sem smásalar geta farið í. Eins og bent er á í skýrslunni þá er líka þetta samstarf við framleiðendur og heildverslanir það er mjög mikilvægt að það sé gott samstarf um framboð og eftirspurn. Þannig að þegar það eru breytingar sem við sjáum, neyslubreytingar og svona trend sem eru í mataræði að fólk sé að tala saman um það,“ segir Gréta. Þá segir hún mikilvægt að umframmagn sé boðið á afslætti í verslunum.  

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi