Pólverjar kjósa sér forseta í dag

12.07.2020 - 06:48
A man casts his vote during presidential runoff election in Krakow, Poland, Sunday, July 12, 2020. Polish President Andrzej Duda and Warsaw Mayor Rafal Trzaskowski are heading into a tight presidential runoff that is seen as an important test for populism in Europe. The Sunday, July 12 election comes after a bitter campaign that has exacerbated a conservative-liberal divide in the country. (AP Photo/Petr David Josek)
 Mynd: AP
Kjörstaðir voru opnaðir í Póllandi fyrir stundu, þar sem seinni umferð forsetakosninga fer fram í dag. Valið stendur á milli sitjandi forseta, þjóðernissinnaðs íhaldsmanns sem er afar tortrygginn á allt sem frá Brussel kemur og fer ekki dult með aðdáun sína á Donald Trump, og svo borgarstjórans í Varsjá, sem er frjálslyndur hægrimaður sem fer ekki leynt með aðdáun sína á Evrópusambandinu og vill efla og bæta samskiptin við það og stofnanir þess í Brussel.

Þótt forsetinn, Andrzej Duda, hafi notið mun meira fylgis en borgarstjórinn, Rafal Trzaskowski, í fyrri umferð kosninganna, þar sem hann fékk 43,5 prósent atkvæða á móti 30,4 prósentum, hefur nú dregið svo saman með frambjóðendunum að ekki mælist marktækur munur á fylgi þeirra í könnunum. Í tólf könnunum sem birtar voru í gær hafði Duda naumt forskot í sjö, en Trzaskowski í fimm.

Örlagaríkar kosningar

Stjórnmálaskýrendur eru á einu máli um að mikið sé í húfi í kosningunum og að úrslit þeirra muni ráða miklu um framtíð ríkisstjórnar Laga og réttlætis og framtíðarsamband Póllands við Evrópusambandið.

Forsíðufyrirsögnin á götublaðinu Super Express í dag er stutt en dramatísk: Orrustan um Pólland, stendur þar í stríðsletri. Annað blað, Gazeta Byborcza, sem er hallara undir stjórnarandstöðuna, segir val kjósenda standa á milli „vonar og hörmunga," og fullyrðir að úrslitin muni hafa afgerandi áhrif á líf og tilveru margra næstu kynslóða. 

Duda líklegri til sigurs

Ráðgjafastofan Eurasia Group, sem sérhæfir sig í áhættustjórnun og pólitík, segir borgarstjórann Trzaskowski hafa verið öflugan og mælskan frambjóðanda. Tvær vikur séu séu þó afar stuttur tími til að vinna upp það mikla forskot sem Duda hefur, auk þess sem andstæðingar forsetans séu afar sundurlaus hópur. Því muni Duda fara með sigur af hólmi, hvað sem kannanir segja.  

Fulltrúar gjörólíkra viðhorfa

Forsetinn, Andrzej Duda, er fyrrverandi þingmaður ríkisstjórnarflokksins Laga og réttlætis og sat á Evrópuþinginu fyrir Pólverja þegar hann bauð sig fram til forseta 2015, fyrir hönd síns flokks. Hann og ríkisstjórnin hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að grafa undan sjálfstæði dómstóla, fjölmiðlafrelsi og alþjóðasamstarfi.

Þá eru stjórnvöld sökuð um að vinna markvisst að því að skerða aftur þau borgaralegu réttindi og frelsi sem pólska þjóðin hefur öðlast á þeim 30 árum sem liðin eru frá falli kommúnismans, ekki síst hinseginfólk og aðrir minnihlutahópar. Þessu vísa pólsk stjórnvöld eindregið á bug og segjast fyrst og fremst bera hag pólsku þjóðarinnar fyrir brjósti. Hluti af þeirri vinnu felist í að minnka vægi Evrópusamstarfsins, og eru bæði forsetinn og ríkisstjórnin afar gagnrýnin á allt sem frá ESB kemur.

Borgarstjórinn, Rafal Trzaskowski, býður sig fram fyrir Borgaravettvanginn, frjálslyndan flokk hægra megin við miðju. Hann hefur beitt sér fyrir réttindum hinseginfólks, sem hefur sætt sívaxandi ofsóknum í Póllandi í stjórnartíð Laga og réttlætis.

Þá leggur hann - eins og flokkur hans - mikla áherslu á að bæta samskiptin við Evrópusambandið og færa þau aftur í fyrra horf, rýmka löggjöf um meðgöngurof, sem ríkisstjórnin herti svo mjög að hún er nú ein sú strangasta í heiminum, og síðast en ekki síst, færa dómstólum landsins aftur það frelsi og sjálfstæði sem ríkisstjórnin hefur svipt þá. 

Fyrstu vísbendingar um það, hvora leiðina Pólverjar kjósa að feta, berast fljótlega eftir að kjörstöðum verður lokað klukkan 19 að íslenskum tíma. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi