Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Óttast að olíumengunarslys kunni að vera í uppsiglingu

12.07.2020 - 11:36
Mynd með færslu
Bílalest Sameinuðu þjóðanna í Sanaa að loknum viðræðum Martins Griffiths, erindreka samtakanna, við uppreisnarmann í fyrradag. Mynd:
Óttast er að yfirgefið og illa farið olíuflutningaskip úti fyrir ströndum Jemen kunni að valda mengunarslysi verði ekki brugðist við. Tankar skipsins eru hálffullir af hráolíu og er óttast að hún leki út frá skipinu vegna ryðs og tæringar. Alþjóðlega viðurkennd stjórnvöld í Jemen hafa leitað til Sameinuðu þjóðanna og sagt að skipið gæti sprungið og valdið stærsta umhverfisslysi í heimshlutanum og jafnvel á heimsvísu.

Skipið FSO Safer er 45 ára og er við akkeri úti fyrir höfn Hodeida sem er undir stjórn Hútí-fylkingarinnar sem nýtur stuðnings stjórnvalda í Íran. Hútí-fylkingin hefur komið í veg fyrir að Sameinuðu þjóðirnar geti sent sérfræðinga á staðinn til að meta ástand skipsins. AFP fréttastofan segir að skipið hafi ekki fengið neitt viðhald frá því að stríðið braust út fyrir fimm árum. Hútí-fylkingin hefur síðan þá náð undir sína stjórn stórum hluta norðurhluta landsins.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hyggst ræða stöðuna í Jemen á fundi sínum á miðvikudag. Talsmaður Sameinuðu þjóðanna segir að fái sérfræðingar að komast um borð geti þeir gert minniháttar lagfæringar á því.

Markaðsvirði olíunnar er um 40 milljónir bandaríkjadala, sem er helmingur þess sem fékkst fyrir hráolíu áður en verðfall varð á mörkuðum. Sérfræðingar segja verðgildi olíunnar ráðast af gæðum hennar sem geti þá mögulega lækkað það enn frekar.

Nýta sér yfirvofandi mengunarslys sér til framdráttar

Hútar eru sagðir nýta sér hættuna á umhverfisslysi til þess að tryggja sér söluhagnaðinn af olíunni. Maeen Abdulmalik Saeed forsætisráðherra Jemen kallar eftir því að alþjóðasamfélagið refsi Hútum fyrir að koma í veg fyrir að Sameinuðu þjóðirnar kanni aðstæður í skipinu og segir að salan á olíunni eigi að nýtast heilbrigðiskerfi landsins og í mannúðaraðstoð. 

Um hundrað þúsund almennir borgarar hafa fallið í átökunum og milljónir orðið að flýja heimili sín. Ástand mannúðarmála er í algjörum lamasessi og óttast alþjóðasamtök að hungursneyð vofi yfir í landinu.