Mótmæli í Belgrað fimmta kvöldið í röð

12.07.2020 - 07:39
A woman prays during a protest in Belgrade, Serbia, Saturday, July 11, 2020. The protests flared when populist President Aleksandar Vucic announced a strict curfew for this weekend to curb a surge in new coronavirus cases. He later scrapped the plan to impose a new curfew and authorities instead banned gatherings of more than 10 people in Belgrade and shortened the working hours of indoor businesses. (AP Photo/Darko Vojinovic)
 Mynd: AP
Þúsundir söfnuðust saman á torginu við þinghúsið í Belgrað í gærkvöld, fimmta kvöldið í röð, til að mótmæla stefnu og aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirufaraldursins. Mótmæli gærkvöldsins voru heldur fámennari en þau sem á undan fóru og mun friðsamlegri en mótmælin á föstudagskvöld, þegar óeirðaseggir blönduðu sér í hóp friðsamra mótmælenda og réðust inn í þinghúsið. 71 var handtekinn á þeim mótmælum, en enginn í gærkvöld.

Mótmælendur, sem flestir voru með grímu fyrir vitum sér, gengu rólega í hringi á torginu við þinghúsið,  þegjandi að mestu en rufu þó þögnina öðru hvoru til að krefjast afsagnar Aleksandars Vucic, Serbíuforseta. Svipuð mótmæli fóru fram í fleiri borgum Serbíu, þar á meðal Novi Sand, Zrenjanin og Nis. Þar fóru mótmælendur líka fram með friði og spekt.

Saka stjórnina um að fórna velferð borgaranna fyrir stundarhagsmuni

Óánægja mótmælenda beinist ekki síst að því sem þeir segja hafa verið ótímabærar tilslakanir ríkisstjórnarinnar á aðgerðum sem miðuðu að því að hamla útbreiðslu COVID-19. Þær tilslakanir, sem meðal annars heimiluðu opnun skemmtistaða og ótakmarkaðan áhorfendafjölda á knattspyrnuleikjum, voru gerðar í aðdraganda þingkosninga.

Sakar stjórnarandstaðan Vucic og stjórn hans um að hafa gripið til þessa til að auka vinsældir sínar og velgengni í kosningunum, og fórnað þannig velferð og heilbrigði þjóðarinnar fyrir eigin stundarhagsmuni. Afleiðingarnar séu nú komnar í ljós, því nú breiðist farsóttin aftur út af auknum krafti.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi