Lekandi og sárasótt færast enn í vöxt

12.07.2020 - 10:03
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Kynsjúkdómarnir sárasótt og lekandi halda áfram að vera sérstakt áhyggjuefni sóttvarnalæknis. Fyrstu sex mánuði ársins greindust 43 einstaklingar með sárasótt sem er umtalsverð aukning miðað við fyrri ár. Alls greindust 38 með sárasótt í fyrra.

Þetta kemur fram í farsóttarfréttum landlæknisembættisins fyrir júlí.  

Lekandi færist einnig í vöxt. Fyrstu sex mánuði ársins höfðu 68 einstaklingar greinst með sjúkdóminn sem er meira en undanfarin ár á sama tíma. Alls greindust 120 með lekanda í fyrra. Karlar greinast með kynsjúkdómana tvo í miklum meirihluta eða 91%. 

Þá er rúmur helmingur sem greinast með sárasótt með erlent ríkisfang en hlutfall þeirra sem greinast með lekanda eru að mestu íslenskir ríkisborgarar eða 81%. 

Lekandi er baktería sem tekur sér bólfestu í kynfærum, þvagrás eða endaþarmi og smitast yfirleitt við samfarir. Lekandi getur valdið ófrjósemi en veldur einnig sýkingu og bólgu í liðum, augum, eggjaleiðurum og kviðarholi. 

Klamydía er eftir sem áður útbreiddasti kynsjúkdómurinn hér á landi en fyrstu sex mánuði þessa árs greindust 834 einstaklingar með sjúkdóminn. Það er svipað og árin á undan. Konur sem greindust eru eins og áður nokkru fleiri en karlar eða 56%.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi