Borgaryfirvöld í Berlín hafa ákveðið að styrkja fjörutíu og sex skemmtistaði og tónleikasali í borginni um 81 þúsund evrur hvern, sem jafngildir 13 milljónum íslenskra króna.
Skemmtistöðum og tónleikasölum í Berlín var lokað þann 14. mars vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og enn er óvíst hvenær þeir verða opnaðir að nýju. AFP fréttastofan hefur eftir Georg Kossler, fulltrúa Græningja í ríkisstjórninni: „Ég vil að fólk fái að dansa og skemmta sér þegar faraldurinn er genginn yfir. Klúbbarnir verða að lifa af“.
Skemmtistaðirnir sem um ræðir eru margir heimsþekktir, sérstaklega meðal teknó-tónlistarunnenda, til dæmis Tresor, the Kater Club og Schwuz.