Hommarnir á höfninni – strákar lentu líka í „ástandinu“

Mynd: Háskóli Íslands / hi.is

Hommarnir á höfninni – strákar lentu líka í „ástandinu“

12.07.2020 - 08:38

Höfundar

Hommarnir á höfninni er yfirskrift kvöldgöngu sem Borgarsögusafn stóð fyrir í vikunni. Særún Lísa Birgisdóttir þjóðfræðingur fór á söguslóðir hins svokallaða „hinsegin ástands“, þar sem samkynhneigðir íslenskir menn í felum áttu í kynferðislegu sambandi við bandaríska hermenn.

Særún Lísa hefur grúskað í þessum málum frá 2012. „Ég var að spjalla við vin minn sem er samkynhneigður og hann segir allt í einu við mig að það hafi líka verið strákar í ástandinu, þegar við vorum að tala um það.“ Kennara hennar fannst þetta verðugt verkefni til að rannsaka frekar en það var ekki auðvelt að finna heimildarmenn. Loks fann hún Þóri Björnsson sem nú er látinn. „Hann var minn helsti heimildarmaður, og hann gat bent mér á aðra.“ Saga samkynhneigðra í ástandinu var nánast eingöngu til í munnlegri geymd, fyrir utan einstaka æsifrétt, áður en Særún byrjaði að rannsaka hana.

Þórir sagði Særúnu Lísu alla sólarsöguna en margir skelltu á hana og vildu alls ekki draga þetta fram í dagsljósið. Aðrir vildu bara tjá sig nafnlaust. „Þetta var algjörlega þaggað niður og erfitt fyrir marga að rifja þetta upp.“ Á þessum tíma var samkynhneigð vart nefnd á nafn í þjóðfélaginu. „Margir af mönnunum í ástandinu höfðu ekki gert sér grein fyrir að þeir væru hommar fyrr en þeir fengu tækifæri til þess þegar hermenn reyndu við þá. Þetta var náttúrulega algjörlega þaggað niður, þú hélst kannski að þú værir bara einn í heiminum með þessar kenndir.“

Með því að eiga í sambandi við hermann var líka öruggt að það fór ekkert lengra, „það vildi enginn hermaður segja frá því að hann væri samkynhneigður, það var brottrekstrarsök,“ segir Særún. Sumir áttu í ástarsamböndum en oft var þetta einnar nætur gaman. Þórir, sem var 15-16 ára gamall, var í sambandi við lækni í hálft ár sem sótti hann alltaf á sama stað einu sinni í viku og gaf honum gjafir sem hann þurfti að fela fyrir móður sinni. Annar maður hafi keyrt með honum hringinn í kringum landið. „Það var svo mikið að gera hjá honum að stundum átti hann tvö deit á sama tíma, hann lýsti því þannig að þetta hefði verið eins og að detta ofan í konfektkassa. Þetta var mjög mikið fjör líka hjá strákunum.“

Særún segir að upp úr þessu hafi myndast fyrsti vísirinn að samfélagi samkynhneigðra á Íslandi. „Það varð til hópur eftir þetta, þegar þeir föttuðu að það voru aðrir eins og þeir. Það má segja að þetta hafi opnað á samkynhneigð.“ Íslendingar voru þó lítið að spá í þessa hlið ástandsins heldur áttu nóg með að hneykslast á meintu lauslæti kvenna, og nánast ekkert er um skriflegar heimildir. „Það fannst fyrir tilviljun ein lögregluskýrsla þar sem var komið að Íslendingi og hermanni í almenningsgarði, þar sem Íslendingurinn sneri baki í hermanninn með buxurnar á hælunum. En það er það eina.“

Þórir lýsti fyrir Særúnu að hann hefði haldið sig í litlum hópi með vinkonum sínum sem vissu af þessu og þetta hafi ekki farið neitt lengra. „Þetta voru svona djammfélagar, og þau kjöftuðu ekki hvert frá öðru því þá hefði þeim verið útskúfað.“ Hún segir Þóri minnast ástandsins með miklum hlýhug. „Hann ljómaði alveg þegar hann sagði mér frá þessu.“ Sjálfur fór hann síðar í kanadíska herinn en þar þorði hann ekki að viðurkenna samkynhneigðina. Margir af vinum hans giftust síðan og eignuðust börn eftir hernámið og vildu aldrei tala um þetta aftur. Særún hefur skrifað lokaritgerð í þjóðfræði og nokkrar greinar um strákana í ástandinu, auk þess að skipuleggja gönguna fyrir Borgarsögusafnið. „Hugmyndin er að koma þessu út á bók, ég vona að ég komi því í verk. Mér finnst þetta vera efni sem má ekki gleymast, og er partur af sögunni.“

Rætt var við Særúnu Lísu Birgisdóttur á Morgunvaktinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Ferðavísir puttalingsins um mannkynssöguna

Erlent

Birtingarmynd djúpstæðs kynþáttamisréttis

Stjórnmál

Mesta slut-shaming Íslandssögunnar

Leiklist

Ástandsstúlkur leysa frá skjóðunni