„Enginn rammi utan um þessar skipanir“

12.07.2020 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Utanríkisráðherra segir nauðsynlegt að hafa aukinn sveigjanleika í utanríkisþjónustunni við skipan sendiherra en þeir séu einfaldlega of margir. Hann segir að þegar sendiherrafrumvarp hans verði tekið til afgreiðslu þingsins í haust þurfi þeir sem hafi brugðið fæti fyrir frumvarpið og spilað tafaleiki að útskýra mál sitt.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpi sínu um skipun embættismanna og fleira í apríl, en það er oftast kallað sendiherrafrumvarpið.

Sendiherrum fækkað og stöður verði auglýstar

Þegar samið var um afgreiðslu mála í vor var frumvarpinu frestað til næsta þings og er stefnt að afgreiðslu þess frá Alþingi í nóvember. Samkvæmt frumvarpinu verða sendiherrastöður framvegis auglýstar til umsóknar og ráðherra boðar fækkun sendiherra sömuleiðis.

Þá verður meðal annars sett þak á fjölda sendiherra og lagt er til að ráðherra sé heimilt að skipa einstakling tímabundið til allt að fimm ára sem sendiherra án þess að auglýsa. Töluverð umræða varð um frumvarpið í vetur þar sem meðal annars Gunnar Pálsson sendiherra í Brussel mótmælti því og sagði það kynda undir tilefnislausa tortryggni í garð sendiherra.

Þeir sem brugðu fæti fyrir frumvarpið þurfi að útskýra mál sitt

Guðlaugur Þór segist hlakka til umræðunnar en hann sjálfur hafi ekki skipað neinn sendiherra síðan hann tók við embætti. Þegar hann hafi tekið við hafi fjórði hver diplómat verið sendiherra.

„Það er ekkert leyndarmál að mér þótti það vera of mikið og það að hafa þetta fyrirkomulag sem er núna þar sem er í rauninni enginn rammi utan um þessar skipanir það held ég að flestir, ef ekki allir, séu sammála um að er eitthvað sem má bæta,“ sagði Guðlaugur Þór við fréttastofu.

„Og við verðum að hafa aukinn sveigjanleika í okkar litlu utanríkisþjónustu því hafi einhver verið í vafa um það að við þyrftum á öflugri utanríkisþjónustu að halda þá hafa atburðir síðustu mánaða sýnt að það er afskaplega mikilvægt.

Síðan er bara verkefnið núna í haust þegar við tökum þessa umræðu aftur að þá verða þeir sem hafa brugðið fæti fyrir frumvarpið og verið að spila tafaleiki, og það er ekki stjórnarmeirihlutinn, þeir þurfa auðvitað að útskýra það af hverju það er.“

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi