Ekkert virkt smit hefur greinst í fimm daga

12.07.2020 - 11:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - Kr - RÚV
Þrír reyndust með mótefni við COVID-19 og fimm bíða enn mótefnamælingar eftir landamæraskimun í gær samkvæmt nýjustu tölum landlæknis. Alls voru 2.040 sýni tekin á landamærunum í gær og átta sýni reyndust jákvæð.

Yfir 100.000 sýni tekin í landinu

Þeim áfanga var einnig náð í gær að fjöldi sýna sem tekin hafa verið á landinu frá því að faraldurinn hófst fór yfir hundrað þúsund. Ekkert virkt smit hefur greinst á landinu síðan 7. júlí.

21 er í einangrun og 82 í sóttkví. 63 sýni voru tekin á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.

Íslensk erfðagreining hættir þátttöku í skimun á landamærunum eftir morgundaginn.

Heimkomusmitgát tekur gildi á morgun

Frá og með morgundeginum þurfa þeir sem búsettir eru hér á landi eða eru íslenskir ríkisborgarar og hafa valið að fara í sýnatöku við komuna til landsins að viðhafa svokallaða heimkomusmitgát í fjóra til fimm daga, og fara svo í sýnatöku öðru sinni. Ef síðari sýnatakan er neikvæð er heimkomusmitgát hætt. Þetta er gert til að minnka líkurnar á hópsmiti. 

Fólk í heimkomusmitgát má ekki vera þar sem fleiri en tíu eru saman komnir. Það má ekki vera í samneyti við fólk í viðkvæmum hópum, ekki heilsa með handabandi og faðmlögum, virða tveggja metra regluna og huga að sóttvörnum. 

Fólk í þessum hópi má nota almenningssamgöngur, fara í bíltúr og búð og hitta vini og kunningja í litlum hópi. 

 
Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi