Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Vinnubrögð sem tíðkuðust á dögum Kreppunnar miklu“

11.07.2020 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - RÚV
Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélags Íslands, segir forsvarsmenn Herjólfs hafa slegið á útrétta sáttahönd háseta og þerna í kjaradeilu við Herjólf ohf. sem fólst í því að fjölga um eina þernu á vakt og að fresta verkfalli meðan sættir næðust.

Sjómannafélag Íslands sendi harðorða yfirlýsingu á fjölmiðla í dag vegna kjaradeilu háseta og þerna um borð í Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi.

Stjórn Herjólfs ohf. kom saman 8. júlí eftir að félagsdómur hafnaði kröfu Samtaka atvinnulífsins um að boðuð vinnustöðvun háseta, bátsmanna og þjónustufólks um borð í Herjólfi yrði dæmd ólögmæt. Niðurstaða fundarins var að hafna kröfugerð félagsmanna í Sjómannafélagi Íslands á grundvelli þess að hún væri óaðgengileg. 

„Boðinn er sambærilegur samningur og áður hefur verið samið um við félagsmenn í Sjómannafélaginu Jötni,“ segir í skriflegu svari frá Guðbjarti Ellert Jónssyni framkvæmdastjóra Herjólfs eftir fundinn. Sjómannafélagið Jötunn er með tvo félagsmenn á Herjólfi en tuttugu eru félagsmenn Sjómannafélags Íslands.

Sakar bæjaryfirvöld um ofríki

Nú eru þrjár þernur á vakt á Herjólfi en voru jafnan fimm á vakt yfir hásumarið hjá Eimskip og Samskip sem áður ráku Herjólf. „Það má með ólíkindum telja, að Bæjarútgerð Eyjanna undir forystu Írisar Róbertsdóttur bæjarstýru, gangi svo freklega á rétt þerna og háseta. Íris heldur um hlutabréf Herjólfs ohf. Hún ásamt stjórn Herjólfs og framkvæmdastjóra ber ábyrgð á ofríki gegn hásetum og þernum á Herjólfi,“ segir í yfirlýsingunni.

„Um þverbak keyrði í þvergirðingshætti og virðingaleysi stjórnar Herjólfs ohf. gagnvart fólkinu, þegar samið var við Sjómannafélagið Jötun um kjör að „skapi“ bæjaryfirvalda. Þessi bolabrögð stjórnar Herjólfs voru sem blaut tuska í andlit þerna og háseta. Vestmannaeyjabær viðhefur vinnubrögð sem tíðkuðust á dögum Kreppunnar miklu og brýtur áratuga samskiptareglur á vinnumarkaði,“ er haft eftir yfirlýsingunni.

Starfsmenn hafa boðað næsta verkfall á þriðjudaginn og stendur það í tvo sólarhringa. Þriðja verkfall er boðað þriðjudaginn 21. júlí og skal standa í þrjá sólarhringa.