Trump felldi niður refsingu Rogers Stone

epa08539715 (FILE) - Roger Stone, a longtime advisor to US President Donald J. Trump, leaves after his sentencing hearing at the DC Federal District Court in Washington, DC, USA, 20 February 2020 (reissued 11 July 2020). The White House issued a press release stating that President Trump commuted the sentence of Roger Stone.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
Roger Stone yfirgefur réttarsalinn í Washington DC í febrúar 2020, eftir að honum var gerð refsing: 40 mánaða fangavist. Trump hefur nú fellt refsinguna niður.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, mildaði í gær fangelsisdóminn yfir félaga sínum og ráðgjafa til áratuga, Roger Stone, og kom þannig í veg fyrir að Stone þurfi að afplána dóminn. „Roger Stone er núna frjáls maður!" segir í tilkynningu sem barst frá Hvíta húsinu í gærkvöld, aðeins nokkrum dögum áður en Stone átti að mæta í alríkisfangelsi til að hefja afplánun 40 mánaða fangelsisdóms sem kveðinn var upp yfir honum í febrúar.

Sakfelldur fyrir sjö ákæruatriði

Stone var sakfelldur í nóvember í fyrra fyrir sjö ákæruatriði, þar á meðal fyrir að bera ljúgvitni fyrir þingnefnd, hafa ólögmæt afskipti af vitni og fyrir að hindra rannsókn þingsins á mögulegu samkrulli Rússa og kosningateymis Trumps í aðdraganda forsetakosninganna 2016.

„Glæpur sem aldrei var framinn“

Í tilkynningu Hvíta hússins er ítrekuð sú afstaða Trumps að sérstakur saksóknari, Rober Mueller, hafi á sínum tíma rannsakað glæp sem aldrei var framinn og því hefði aldrei átt að kæra Stone yfir höfuð. „Staðreyndin er einfaldlega sú, að ef sérstakur saksóknari hefði ekki verið að eltast við algjörlega tilefnislausa rannsókn, þá hefði herra Stone aldrei átt fangelsisvist yfir höfði sér," segir í tilkynningunni.

Hvorki náðun né ógilding heldur niðurfelling refsingar

Með inngripi sínu er forsetinn hvorki að náða Stone né hrófla við dómnum, heldur eingöngu að forða honum frá því að taka út refsinguna sem honum var gerð fyrir brotin. Í frétt AFP segir að þessi gjörningur Trumps muni vafalaust endurvekja ásakanir um óeðlileg afskipti hans af dómskerfinu í því skyni að hygla vinum sínum og liðsmönnum, en refsa gagnrýnendum og þeim sem forsetinn telur til óvina sinna.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi