Töpuðu stigum á heimavelli í fyrsta sinn í 18 mánuði

epa08540460 Burnley's Erik Pieters (L) in action against Liverpool's Andrew Robertson (R) during the English Premier League soccer match between Liverpool FC and Burnley FC in Liverpool, Britain, 11 July 2020.  EPA-EFE/Phil Noble/NMC/Pool EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications.
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL

Töpuðu stigum á heimavelli í fyrsta sinn í 18 mánuði

11.07.2020 - 16:10
Liverpool og Burnley skildu jöfn 1-1 á Anfield í Liverpool-borg í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Burnley er í mikilli baráttu um sæti í Evrópukeppni að ári en Liverpool eltir stigamet.

Liverpool hefur þegar tryggt sér enska meistaratitilinn og var fyrir leik dagsins með 92 stig í toppsæti deildarinnar. Burnley var aftur á móti með 49 stig í tíunda sæti.

Liverpool var líkt og búist var við töluvert sterkari aðilinn framan af leik. Liðinu tókst að færa yfirburðina sér í nyt þegar Skotinn Andrew Robertson skallaði boltann snyrtilega í netið á 34. mínútu. 1-0 stóð í leikhléi og virtist lið Liverpool líklegra til að bæta við mörkum en Burnley til að jafna. Nick Pope stóð vaktina þó vel í marki gestanna og varði oft frábærlega.

Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson hefur verið að stíga upp úr langvinnum meiðslum hjá Burnley en hefur þó fáar mínútur spilað. Hann fékk tækifæri í dag er honum var skipt inn á í lið Burnley á 65. mínútu og spilaði síðasta hálftíma leiksins. Aðeins fjórum mínútum eftir að Jóhann kom inn á tókst Burnley að jafna í gegnum Jay Rodriguez.

Jóhann Berg var ekki langt frá því að stela stigunum þremur fyrir Burnley í lokin en skot hans small þá í þverslánni.

1-1 urðu úrslit leiksins og er Burnley fyrsta liðið sem kemur í veg fyrir sigur Liverpool á Anfield í 18 mánuði. Liverpool hafði unnið 24 heimaleiki í röð í ensku deildinni fyrir leik dagsins.

Liverpool er með 93 stig á toppi deildarinnar þegar liðið á þrjá leiki eftir. Liðið þarf að vinna þá alla til að slá stigamet Manchester City frá tímabilinu 2017-18 en þá fékk City 100 stig.

Burnley er með 50 stig í níunda sæti, jafnmörg og Arsenal sem er sæti ofar. Sheffield United er með 51 stig í sjöunda sætinu og Wolves með 52 í því sjötta.