Segir afstöðu Sigríðar Bjarkar litaða af valdabaráttu

ríkislögreglustjóri, húsnæði ríkislögreglustjóra
 Mynd: ruv.is
Yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra segir að rekja megi andstöðu Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra við kjarasamninga sem forveri hennar gerði við yfirmenn embættisins á síðasta ári, til valdabaráttu innan lögreglunnar.

Í samtali við Morgunblaðið segir Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjónn,  að Sigríður Björk hafi unnið að því leynt og ljóst að rifta samkomulaginu, sem fól í sér að föst yfirvinna var færð inn í grunnlaun  yfirlögregluþjónanna og hækkaði þar með lífeyrisréttindi þeirra svo um munaði. Hún hafi boðað miklar breytingar hjá embættinu og þótt hún kalli það ekki hreinsanir, þá hafi hún tilkynnt að stöður hjá embættinu verði auglýstar og að nýir menn eigi að koma þar inn, segir Óskar í viðtalinu.

Ýjar að samkrulli Sigríðar og formanns Lögreglufélags Reykjavíkur

Hann rifjar upp ummæli Haralds Johannessens, fyrrverandi ríkislögeglustjóra, í viðtali við Morgunblaðið síðasta haust, þar sem Haraldur sagði gagnrýni á embættið og hans embættisfærslu hluta af markvissri rógsherferð sem miðaði að því að hrekja hann úr embætti.

Því næst víkur Óskar að því sem hann kallar „herferð Lögreglustjórafélags Íslands gegn Haraldi varðandi vantraustsyfirlýsinguna á hendur honum."

Sú hafi birst sama dag og Landssamband lögreglumanna lýsti vantrausti á Harald, að undirlagi Arinbjarnar Snorrasonar, formanns Lögreglufélags Reykjavíkur, „sem svo vill til að er í yfirstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og nú í yfirstjórn Ríkislögreglustjóra með Sigríði Björk,“ segir Óskar í Morgunblaðinu í dag.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi