Mildun dóms yfir Stone „fordæmalaus spilling“

11.07.2020 - 18:34
Mynd með færslu
Mitt Romney. Mynd:
Öldungadeildarþingmaðurinn Mitt Romney segir ákvörðun Donalds Trumps forseta að milda fangelsisdóm yfir Roger Stone, félaga sínum og ráðgjafa til áratuga, vera fordæmalausa og sögulega spillingu.  

Romney tjáir sig um ákvörðun forsetans á Twitter. Hann segir að forsetinn hafi mildað refsingu yfir manneskju sem kviðdómur hafi sakfellt fyrir að ljúga til varnar sama forseta.

Stone var sakfelldur í nóvember í fyrra fyrir að hindra rannsókn þingsins á mögulegu samkrulli Rússa og kosningateymis Trumps í aðdraganda forsetakosninganna 2016.

Romney var eini þingmaður Repúblikana sem greiddi atkvæði með því að sakfella Trump fyrir embættisglöp í febrúar. Það dugði þó ekki til og Trump var sýknaður. 

Demókratinn Adam Schiff, formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sem er nefndin sem Stone var dæmdur fyrir að ljúga að, segir ákvörðun forsetans eyðileggjandi bæði fyrir réttarkerfið og réttarríkið.  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi