Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Líklegt að sárafátækt muni aukast á Suðurnesjum

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Allar líkur eru á að fjölga muni í hópi þeirra íbúa á Suðurnesjum sem teljast sem sárafátækir. Brýnt er að stjórnvöld og samfélagið allt komi til aðstoðar. Þetta segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar sem er í Velferðarvaktinni.

Velferðarvaktin fundaði með bæjaryfirvöldum og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu fyrir skömmu þar sem staðan í kjölfar COVID-19 faraldursins var rædd. Þar er nú um 20% atvinnuleysi og búist er við að það aukist í haust.

Yfir 100 íbúar á svæðinu munu missa réttinn til atvinnuleysisbóta í haust, einhverjir þeirra munu þurfa að þiggja fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu með haustinu, en hún er talsvert lægri í Reykjanesbæ en víða annars staðar á landinu. Þar fær einstaklingur tæpar 153.000 krónur á mánuði, en í Reykjavík nemur aðstoðin 207 þúsundum króna. 

Einsýnt að þarna mun fólk búa við sára fátækt

„Það er mikið atvinnuleysi á Suðurnesjunum og þegar fólk dettur út af uppsagnarfresti í haust og fer á strípaðar atvinnuleysisbætur þá vitum við að það verður mikill vandi. Þá mun fólk búa við mikla fátækt. Það er einsýnt að þarna mun fólk búa við sára fátækt.“

Vilborg segir að fram hafi komið á fundinum að hugur sé í Suðurnesjamönnum. „Maður finnur að þeir ætla ekkert að gefast upp. Það þarf að styðja við bakið á Suðurnesjum; ríkisvaldið og við, almenningur í landinu, þarf að gera það. Því öðruvísi getur ekkert sveitarfélag komist í gegnum svona mikinn vanda og þessa skafla sem verða í haust.“